Viðskipti innlent

Erlendir aðilar eiga 62% af útistandandi ríkisbréfum

Erlendir aðilar áttu í febrúarlok ríkisbréf og -víxla fyrir tæplega 200 milljarða kr. að nafnvirði. Þar af nam eign þeirra í ríkisbréfum 175 milljörðum kr., sem jafngildir 62% af útistandandi ríkisbréfum að viðbættum lánsbréfum til aðalmiðlara.

 

Ríkisvíxlaeign erlendra aðila nam 21 milljarði kr. sem samsvarar rúmlega 27% af útistandandi víxlum í lok febrúar.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu en upplýsingarnar koma fram í nýbirtu mánaðaryfirliti Seðlabankans yfir lánamál ríkisins.

 

Útlendingar voru umsvifamestir í þeim ríkisbréfum sem stystan líftíma hafa. Erlendir fjárfestar áttu þannig í febrúarlok 131 milljarða kr. í stystu ríkisbréfaflokkunum tveimur sem samsvarar 79% af heildarstærð þessara flokka.

 

Bankar og sparisjóðir voru næststærstu eigendur ríkisbréfa, með tæp 14% af útistandandi bréfum. Athyglisvert er hins vegar að lífeyrissjóðir áttu í febrúarlok aðeins rúm 6% af útistandandi ríkisbréfum. Þar verður raunar að taka með í reikninginn að óbein eign þeirra í gegn um verðbréfa- og fjárfestingasjóði kann að vera nokkur, en slíkir sjóðir áttu 6,5% af útistandandi ríkisbréfum í febrúarlok.

Athygli vekur að þrátt fyrir mikla ríkisbréfaeign erlendra fjárfesta hafa þeir haldið sig til hlés í útboðum Seðlabankans á ríkisbréfum undanfarið. Þannig keyptu þeir ekkert í síðasta ríkisbréfaútboði þann 20. mars síðastliðinn, þegar boðnir voru út þrír lengstu flokkar ríkisbréfa.

 

Virðast erlendir aðilar að mestu leyti kaupa ríkisbréf sín á eftirmarkaði þessa dagana. Áhugasamari voru útlendingarnir um útboð ríkisvíxla 18. mars, en samkvæmt mánaðarriti Seðlabanka keyptu þeir víxla fyrir 11,5 milljarða kr. af þeim 20 milljörðum kr. sem alls voru seldir í útboðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×