Viðskipti innlent

Góður gangur hjá Opin kerfi ehf.

Opin kerfi ehf. hafa sent frá sér tilkynningu vegna frétta um Opin Kerfi Group hf. í gærdag. Í tilkynningunni segir að góður gangur sé í rekstri Opinna kerfa ehf. og að reksturinn á fyrsta ársfjórðungi ársins hafi gengið mjög vel.

Tilkynningin hljóðar svo: „Til að fyrirbyggja misskilning í kjölfar fréttaflutnings um Opin kerfi Group hf. þar sem húsnæði og vörumerki Opinna kerfa ehf. birtast, vilja forráðamenn Opinna kerfa ehf. koma því á framfæri að í október 2007 keypti eignarhaldsfélag í eigu Frosta Bergssonar, Opin kerfi ehf. af Opin kerfi Group hf. Eignarhaldsfélag Frosta Bergssonar fer í dag með ráðandi hlut og aðrir eigendur eru Skipti hf. og starfsmenn Opinna kerfa ehf. Hjá félaginu starfa 95 starfsmenn.

Rekstur félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2009 gekk mjög vel og náði félagið metnaðarfullum markmiðum sínum. Í árferði því sem nú ríkir reynir á aðlögunarhæfni félaga, traust tengsl við lykilbirgja, náið samstarf við viðskiptavini og viljann til að vera í sigurliðinu.

Árangur Opinna kerfa ehf. ber fyrst og fremst að þakka samstilltum hópi starfsmanna og eigenda sem snúið hafa bökum saman og varið kjarnafærni félagsins með það að markmiði að skapa virði fyrir alla hagsmunaaðila. Slíka auðlind er vandasamt að afrita og því miður að sterk vörumerki Opinna kerfa ehf. og HP hafi verið tengd umfjöllun um félag sem er þeim alls ótengt.

Stjórn og starfsmenn gera sér grein fyrir að um langhlaup er að ræða og í endamarkið komast þeir fyrstir sem hafa þarfir viðskiptavina í forgrunni og veita þeim framúrskarandi þjónustu byggða á réttu lausnaframboði. Hlutverk lykilbirgja í umrótinu er afar mikilvægt og stuðningur þeirra við félagið hefur endurspeglast í hagstæðu vöruverði, skilvirku vöruflæði og sveigjanlegum fjármögnunarleiðum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×