Viðskipti innlent

Spölur tapaði 129 milljónum á rekstrarárinu

Tap Spalar ehf eftir skatta fyrir rekstarárið 1. október 2008 til 30. september 2009 nam kr. 129 milljónum kr. en tap á tímabilinu 1. október 2007 til 30. september 2008 nam 220 milljónum kr.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að hagnaður Spalar eftir skatta á fjórða ársfjórðungi félagsins sem er 1. júlí 2009 til 30. september 2009 nam 54 milljónum kr. Á sama tíma árið á undan nam hagnaður félagsins 98 milljónum kr.Reikningsár Spalar er 1. október til 30. september ár hvert.

Veggjald ársins nam 920 milljónum kr. til samanburðar við 979 milljónir kr. árið áður sem er 6,03% lækkun.

Rekstrarkostnaður Spalar ehf án afskrifta fyrir árið 1. október 2008 til 30.september 2009 nam 262 milljónum kr. og lækkar um rúmar 90 milljónir kr frá árinu áður þegar hann nam 352 milljónum kr. Skýrist þessi lækkun fyrst og fremst vegna gjaldfærðs rannsóknarkostnaðs vegna nýrra gangna samtals 103 milljónir kr. á árinu 2008 en 1 milljón kr. á árinu 2009.

Skuldir Spalar hækka úr 4.393 milljónum kr. þann 30. september 2008 í 4.413 milljónir kr. þann 30. september 2009.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir í tilkynningunni að umferð og tekjur séu nokkru meiri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir. Hækkun reikningslegra gjaldfærslna vegna hækkunar lána út af vísitöluhækkunum og gengisbreytingum var meiri en áætlað var.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×