Viðskipti innlent

Þrotabú Milestone riftir veðsetningu á reikningi í Glitni

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Skiptastjóri þrotabús Milestone hefur rift veðsetningu á bankareikningi félagsins sem var í Glitni. Beðið er eftir skýrslu frá Ernst og Young til að taka afstöðu til frekari riftana. Heildarkröfur í félagið nema tæpum 100 milljörðum króna.

 

 

 

Milestone var tekið til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum. Kröfuhafar höfðu þá hafnað nauðasamningi sem gerði ráð fyrir því að þeir fengju 6% upp í kröfur sínar. Heildarkröfur í félagið nema tæpum eitthundrað milljörðum króna.

 

Allar eignir þrotabúsins eru í sölumeðferð auk þess sem allir stærstu gjörningar félagsins eru til skoðunar, þar með talið salan á Sjóvá, Askar Capital og Avent til sænska dótturfélagsins Moderna. Undanfarið hefur Ernst og Young unnið að skýrslu um félagið en hún liggur ekki fyrir enn. Stóð til að búið yrði að taka afstöðu til krafna í dag en skiptafundur var haldinn nú fyrir hádegi. Það náðist hins vegar ekki þar sem enn er beðið eftir umræddri skýrslu.

 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur skiptastjóri beitt riftun í einu tilviki. Milestone var með milljarða króna lán í Glitni sem var tekið fyrir um þremur árum. Á árinu 2008 veitti Milestone bankanum tryggingu fyrir láninu með veði í innstæðum upp á 300 milljónir króna. Þessari tryggingu var rift rétt áður en kröfulýsingarfrestur rann út í Glitni í lok nóvember og gerði þrotabúið þá um 300 milljóna króna kröfu í bankann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×