Viðskipti innlent

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði minnkaði um 57% milli ára

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dróst saman um 57% á milli þriðja ársfjórðungs í ár og sama tíma í fyrra. Er þetta mesti samdráttur í íbúðarfjárfestingu yfir eitt ár sem mælst hefur frá því að ársfjórðungslegir þjóðhagsreikningar hófust árið 1998.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þessi samdrátturinn komi ofaná 24% samdrátt sem orðinn var á þriðja ársfjórðungi í fyrra frá sama tíma árið 2007. Þannig var fjárfesting í íbúðarhúsnæði á þriðja ársfjórðungi í ár einungis 9,6 milljarðar kr. og um 42% af því sem hún var á sama tíma fyrir tveim árum. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan birti í gær.

Ofangreind þróun kemur ekki á óvart en kreppan hefur ekki síst birst í kröftugri niðursveiflu á íbúðamarkaðinum. Húsnæðisverð hefur lækkað á sama tíma og byggingarkostnaður hefur hækkað. Þannig var verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu 12% lægra í október í ár en í upphafi árs 2008 þegar það stóð hæðst í síðustu uppsveiflu. Á sama tíma hefur vísitala byggingakostnaðar hækkað um 32%.

Eftirspurn eftir nýju íbúðarhúsnæði hefur dregist umtalsvert saman á þessu tímabili ásamt spurn eftir íbúðarhúsnæði almennt. Í nóvember síðastliðnum var fjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu með íbúðarhúsnæði innan við þriðjungur þess sem hann var í sama mánuði 2007.

Þá voru heildarútlán Íbúðalánasjóðs á fyrstu ellefu mánuðum þessa árs 56% minni en á sama tímabili í fyrra samkvæmt skýrslu sjóðsins sem birt var nú í morgun. Alls voru útlán sjóðsins á þriðja ársfjórðungi í ár 6,9 milljarða kr. samanborið við 17,3 milljarða kr. í sama ársfjórðungi 2007.

Í þessu árferði hefur ekki gengið sem skyldi að selja nýtt húsnæði og stendur nokkuð af því autt eða hefur verið leigt út en leigumarkaðurinn hefur verið nokkuð blómlegur undanfarið. Arðsemi þess að ráðast í nýbyggingar, sem var umtalsverð þegar bólan á íbúðamarkaðnum stóð sem hæðst í uppsveiflunni síðustu, er nú lítill sem enginn.

Þróunin hefur valdið umtalsverðum gjaldþrotum í byggingariðnaði en á fyrstu tíu mánuðum þessa árs hafa 203 fyrirtæki orðið gjaldþrota í byggingarstarfsemi en í fyrra voru þau 119 á sama tíma








Fleiri fréttir

Sjá meira


×