Viðskipti innlent

Bolli í Sautján með í kaupum á Árvakri

Salan á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, í febrúar var með fyrstu stóru fyrirtækjasölum íslenskra banka eftir hrunið í fyrra. Tap af rekstri Árvakurs fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 557 milljónum króna á síðasta ári. Samtals nam tapið tæplega 2,9 milljörðum króna. Tap á hverja krónu hlutafjár nam 8,5 krónum.réttablaðið/GVA
Salan á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, í febrúar var með fyrstu stóru fyrirtækjasölum íslenskra banka eftir hrunið í fyrra. Tap af rekstri Árvakurs fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 557 milljónum króna á síðasta ári. Samtals nam tapið tæplega 2,9 milljörðum króna. Tap á hverja krónu hlutafjár nam 8,5 krónum.réttablaðið/GVA

Athafnamaðurinn Ásgeir Bolli Kristinsson, oft kenndur við verslunina Sautján, hefur bæst í eigendahóp Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Að sögn Óskars Magnússonar, útgáfustjóra Árvakurs og stjórnarformanns, má segja að Bolli komi inn í eigendahópinn í stað Gísla Baldurs Garðarssonar lögmanns.

Óskar Magnússon, sem fór fyrir kaupum hlutafélagsins Þórsmerkur á Árvakri á fyrri hluta þessa árs, kveðst ekki í stöðu til að gefa nákvæmlega upp eigendaskiptingu útgáfufélagsins. „Við höfum ekki gefið hana upp. Þetta er inni í Þórsmörk og kannski ekki allt saman alveg frágengið,“ segir hann. Stærstu hluthafarnir séu hins vegar hann sjálfur, Samherji og Guðbjörg Matthíasdóttir í Ísfélagi Vestmannaeyja. Saman séu þau með rúman helmingshlut.

Aðrir hluthafar sem orðaðir hafa verið við útgáfufélag Morgunblaðsins eru Páll H. Pálsson, forstjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, Gunnar B. Dungal, fyrrum eigandi Pennans, og Þorgeir Baldursson, forstjóri Kvosar, eignarhaldsfélags prentsmiðjunnar Odda.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þurfa eigendur Árvakurs á fyrsta fjórðungi næsta árs að hefja greiðslur af um 2,4 milljarða króna láni frá Íslandsbanka sem þeim var veitt í tengslum við kaupin á útgáfufélaginu snemma á þessu ári. Við kaupin lögðu nýju hluthafarnir jafnframt um 500 milljónir króna í reksturinn.

„Við vinnum hér eftir þeim áætlunum sem við gerðum um kaupin og ég er bjartsýnn á að þær gangi eftir,“ segir Óskar, en kveðst um leið ekki vilja tjá sig nánar um reksturinn eða fjármögnun hans. Því sé þó ekki að neita að fjölmiðlarekstur og ekki síður rekstur dagblaða sé þungur um þessar mundir.

Heildarskuldir Árvakurs námu samkvæmt ársreikningi tæpum 5,9 milljörðum króna um síðustu áramót og eiginfjárstaða var neikvæð um rúma tvo milljarða króna. Tap ársins 2008 nam tæpum 2,9 milljörðum króna.

Við söluna á útgáfufélaginu til Þórsmerkur töpuðu fyrri hluthafar öllum eignarhlut sínum, en afskrifaðir voru um 2,9 milljarðar króna.

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×