Viðskipti innlent

Kaupþing tók 1998 yfir á leynifundi

Kaupþing tók yfir 1998, móðurfélag Haga, á leynilegum fundi í höfuðstöðvum bankans þann 20. október. Enginn af þáverandi stjórnarmönnum sat fundinn en þeim var öllum skipt út fyrir starfsmenn bankans síðar þann dag. Jóhannes í Bónus kom aftur inn í stjórnina sex dögum síðar eftir að hafa fengið frest til að koma með áætlun um endurfjármögnun félagsins.

Daginn eftir að Hagar luku endurfjármögnum félagsins tók nýi Kaupþing yfir móðurfélag Haga, 1998. Í gögnum frá fyrirtækjaskrá má sjá að þann dag, 20. október, leysti bankinn til sín alla hluti í 1998 á grundvelli þess að lánasamningur var gjaldfelldur. En bankinn átti veð í hlutum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Hluthafafundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Kaupþings. Þótti bankanum brýnt ð boða til fundarins án tafar og án tillits til þáverandi stjórnar félagsins. Af þessum ástæðum þótti nauðsynlegt að halda fundinn annars staðar en á heimili félagsins.

Meðal gagna á fundinum voru tilkynningar bankans til félagsins um gjalddaga, innheimtuviðvörun og lokaaðvörun vegna greiðslufalls á lánasamningnum. Þrír starfsmenn bankans voru skipaðir í stjórn í stað Ingibjargar Pálmadóttur, Kristínar Jóhannesdóttur og Hreins Loftssonar. Sex dögum síðar er haldinn annar hluthafafundur og breytingar á stjórn tilkynntar til fyrirtækjaskrár. Þá vék starfsmaður Kaupþings fyrir Jóhannesi Jónssyni í Bónus.

En hvað varð til þessara stakkaskipta hjá Kaupþingi? Samkvæmt heimildum fréttastofu var þetta meðal annars leið bankans til að knýja fram viðbrögð eigenda félagsins og þau létu ekki á sér standa. Jóhannes náði að gera samkomulag við bankann eftir að bankinn hafði í raun tekið félagið yfir, um frest til að skila áætlun um með hvaða hætti fjölskylda hans gæti komið að endurreisn félagsins.

Þann 22. nóvember barst Arion tilboð frá Jóhannesi sem bankinn hyggst skoða fram í miðjan janúar. Jóhannes vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í dag og Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion, vildi ekki veita neinar upplýsingar um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×