Erlent

Beðið eftir sprengingu

Eldfjallið Mayon Hefur gosið nærri 40 sinnum síðustu fjórar aldirnar.
fréttablaðið/AP
Eldfjallið Mayon Hefur gosið nærri 40 sinnum síðustu fjórar aldirnar. fréttablaðið/AP

Eldfjallið Mayon á norðanverðum Filippseyjum er eins og tifandi sprengja þessa dagana. „Hættuleg sprenging gæti orðið í dag eða næstu dögum," segir Renato Solidum eldfjallafræðingur.

Nærri allir íbúar í næsta nágrenni fjallsins, um 45 þúsund talsins, hafa nú forðað sér á öruggari slóðir. Flestir hafast þeir við í neyðarskýlum, skólum og íþróttahúsum í nærliggjandi byggðum, en sumir gista hjá ættingjum og vinum.

Stöðug aska streymir úr fjallinu og hraun vellur niður hlíðarnar. Jarðskjálftar mælast með stuttu millibili og telja jarðfræðingar verulegar líkur á sprengigosi.

Enn eru þó um tvö þúsund manns í innan við átta kílómetra fjarlægð frá fjallinu, en það er sú fjarlægð sem miðað er við þegar fólk er hvatt til að forða sér. Hermenn og lögregluþjónar hafa verið á eftirlitsferðum um svæðið til að hvetja fólk til að fara á brott.

Síðast gaus Mayon árið 2006. Þá voru 30 þúsund manns fluttir frá hættuslóðunum. Árið 1979 kostaði gos í fjallinu 79 manns lífið. Fjallið hefur gosið nærri 40 sinnum síðan 1616. Mannskæðasta gosið varð árið 1814, en þá létu meira en 1.200 manns lífið.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×