Viðskipti innlent

Alfesca skilar góðu uppgjöri

Alfesca tapað um 0,3 milljónum evra, eða rúmlega 51 milljón kr., á þriðja ársfjórðungi (reikningsárið gildir frá júlí til júlí), en gengi gjaldmiðla og fjárfestingar vegna endurskipulagningar starfseminnar hafði þar áhrif. Félagið telur þetta viðunandi árangur miðað við markaðsaðstæður.

Í tilkynningu segir að nettósala nam 492,7 milljónum evra, eða rúmlega 84 milljörðum kr. fyrstu níu mánuði fjárhagsársins, dróst saman um 0,9% m.v. sama tímabili árið áður. Salan nam 118,3 miljónum evra á þriðja ársfjórðungi, dróst saman um 3,6% m.v. sama tímabil í fyrra.

Sala samstæðunnar leið fyrir áframhaldandi efnahagskreppu, erfitt neytendaumhverfi, óhagstæðar breytingar á gengi gjaldmiðla og hátt hráefnisverði á laxi.

Fjárhagsleg staða félagsins er áfram sterk og reksturinn traustur en nettóskuldir nema 141,9 milljónum evra en hlutfall skulda á móti eigin fé var 43% við lok 3. ársfjórðungs.

„Eins og við var að búast var þriðji ársfjórðungur erfiður fyrir félagið og ókyrrð á þeim mörkuðum sem við störfum á. Margt varð til þess að hafa áhrif á sölu okkar og afkomu á fjórðungnum en þar má helst nefna örar breytingar á kauphegðun neytenda, versnandi efnahagsskilyrði, óhagstæðar gengisbreytingar, áframhaldandi hátt hráefnisverð og sú staðreynd að páskar lentu innan fjórða ársfjórðungs," segir Xavier Govare forstjóri félagsins í tilkynningu um uppgjörið.

„Í ljósi þessara erfiðu aðstæðna vorum við engu að síður ánægð með sölu samstæðunnar en hún dróst einungis saman um 3,6% á samanburðargrundvelli og varð 118,3 milljónir evra."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×