Viðskipti innlent

Nýskráningum bíla fækkar um 85%

Bílasala hefur ekki farið vel af stað á nýju ári. Fyrstu tvo mánuði ársins voru 296 nýjar bifreiðar nýskráðar en á sama tímabili fyrir ári síðan voru þessar bifreiðar um 2.000 talsins og hefur nýskráningum því fækkað um 85% á milli ára.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að sala nýrra bifreiða hafi dregist hratt saman frá því um mitt síðasta ár og þá drógust nýskráningarnar ennþá meira saman en áður í kjölfar bankahrunsins í september.

Á síðasta ársfjórðungi 2008, þ.e. eftir bankahrunið, voru 460 nýskráðar bifreiðar í landinu samanborið við 5.247 á sama tíma 2007. Miðað við það tímabil er samdrátturinn 91%.

Í tölum Umferðarstofu kemur fram að alls voru 81 bifreið af þeim 296 sem voru nýskráðar á tímabilinu afskráðar úr landi í kjölfarið og fóru því aldrei á götuna hér á landi. Nokkuð hefur verið um að nýjar bifreiðar hafi verið fluttar úr landi til sölu erlendis eftir að Alþingi samþykkti seint á síðasta ári lög sem gera útflutning bifreiða hagkvæmari en áður.

Samkvæmt lögunum fást opinber gjöld endurgreidd að verulegu eða öllu leyti við útflutning. Útflutningur bíla á tímabilinu hefur þó eflaust verið meiri en þessar ofangreindu tölur benda til enda er hér eingöngu um að ræða nýjar bifreiðar og þá er ekki í öllum tilvikum nauðsynlegt að nýskrá bifreið hér á landi til að geta flutt hana út.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×