Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri AGS gagnrýnir fyrrverandi ríkisstjórn Íslands

 

Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) fór gagnrýnum orðum um fyrrverandi ríkisstjórn Íslands, undir forystu Geirs H. Haarde, í ræðu sem hann hélt á fundi hjá seðlabanka Austurríkis í Vín í síðustu viku.

Ræða Strauss-Kahn fjallaði um áfallastjórnun og samhæfðar aðgerðir í fjármálakreppunni og hann nefndi fyrrverandi ríkisstjórn Íslands sem dæmi þar sem samræmdar aðgerðir í kjölfar bankahrunsins s.l. haust hefðu mistekist.

„Ég get bent á ákveðin dæmi þar sem samræmdar aðgerðir mistókust eins og við gjaldþrot Lehman og hruns íslenska bankakerfisins," sagði Strauss-Kahn. „Þegar Lehman féll gripu þjóðir strax til þess ráðs að slá skjaldborg um eignir innan eigin lögsögu. Á Íslandi kom upp svipað dæmi. Þótt að íslensku bankarnir hefði fjölda af erlendum innistæðueigendum brugðust stjórnvöld í því að samhæfa aðgerðir sínar ásamt þeim þjóðum sem áttu hlut að máli."

Strauss-Kahn sagði síðan að viðkomandi þjóðir hefðu mætt þessu með því að yfirtaka eigur íslensku bankanna til að verja eigin innistæðueigendur. „Þetta var ekki besta útkoman," sagði Strauss-Kahn.

„Mistök voru gerð en stjórnvöld lærðu af þeim mistökum og eru enn að læra. Eftir því sem fjármálakreppan þróaðist og varð að stærra alþjóðlegu vandamáli urðu viðbrögðin við henni meira samræmd."

Í ræðunni fór Strauss-Kahn síðan yfir þau ráð sem gripið hefur verið til, miklar stýrivaxtalækkanir, aukið lausafé til bankanna ásamt annarri aðstoð og björgunaraðgerðum. Enn hann varar jafnframt við að kreppan sé ekki yfirstaðin. Mikið verk sé enn framundan og menn ættu ekki að fara að slappa af í aðgerðum sínum núna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×