Viðskipti innlent

Greiðsluskjól Frjálsa fyrir einstaklinga með erlend lán

„Frjálsi fjárfestingarbankinn er stoltur af að kynna viðskiptavinum sínum skuldbreytingarlausn sem tekur bæði á vanda vegna höfuðstóls erlendra lána og aukins greiðsluþunga eftir fall íslensku krónunnar," segir í tilkynningu frá bankanum um málið.

Þar kemur fram að viðskiptavinum Frjálsa fjárfestingarbankans stendur til boða 26% lækkun höfuðstóls að meðaltali þegar láni er skuldbreytt í íslenskar krónur. Lækkunin tekur mið af myntsamsetningu og lengd lánasamnings.

Við skuldbreytinguna verður lánið að íslensku verðtryggðu láni, 25 eða 40 ára, með föstum 3,95% vöxtum í þrjú ár og möguleika á lengingu um eitt ár fyrir skilvísa greiðendur. Eftir það verða fastir vextir lánsins 5,25%.

Jafnframt standa viðskiptavinum til boða fastir óverðtryggðir 6,95% vextir í þrjú ár með lengingu í eitt ár fyrir skilvísa greiðendur. Þeir vextir breytast síðan í millibankavexti (REIBOR) + 1,50% en viðskiptavinum er einnig frjálst að skipta yfir í fasta verðtryggða 5,25% vexti.

Með aðgerð þessari geta lántakendur í viðskiptum við Frjálsa fjárfestingarbankann lækkað greiðslubyrði sína af erlendum fasteignalánum um allt að 41% og um allt að 20% ef miðað er við greiðslubyrði eftir greiðslujöfnun erlends láns.

„Úrræði Frjálsa fjárfestingabankans myndar greiðsluskjól til næstu ára og kemur til móts við þarfir heimila sem glíma við skerta greiðslugetu eða of háa skuldabyrði vegna erlendra lána. Úrræðið stendur viðskiptavinum til boða frá 14. desember næstkomandi og út febrúarmánuð árið 2010.

Frjálsi fjárfestingarbankinn tekur auk þess þátt í úrræðum ríkisstjórnarinnar að því er varðar greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun.," segir í tilkynningunni.

Starfsemi Frjálsa fjárfestingarbankans felst aðallega í þjónustu við viðskiptavini, þótt ekki séu veitt ný lán, ásamt þjónustu við lánasöfn, innheimtustarfsemi, umsýslu leigufélaga og umsjón ýmissa byggingarverkefna. Starfsemi bankans varð 27 ára á þessu ári en hann hefur verið í eigu SPRON frá því í lok árs 2002.

Við fall SPRON lokaðist fyrir stuðning móðurfélagsins við fjármögnun Frjálsa fjárfestingarbankans. Þegar fyrirséð var að greiðsluörðugleikar bankans liðu ekki hjá á skömmum tíma var óskað eftir slitum á honum í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki. Í framhaldi af því var slitastjórn skipuð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×