Viðskipti innlent

Garðabær reiknar með afgangi af rekstrinum á næsta ári

Bæjarstjórn Garðabæjar gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 67 milljónir kr. í fjárhagsáætlun sinni fyrir næsta ár. Veltufé frá rekstri er 13,6% og er það til marks um trausta fjárhagsstöðu Garðabæjar, að því er segir í tilkynningu um málið.

Fram kemur að í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2010 er tekið mið af þeim áherslum sem fram komu á nýlegum íbúafundi um að standa vörð um skóla- og æskulýðsstarf. Sérstök fjárveiting er veitt til að styrkja barna- og unglingastarf hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum í bænum og einnig er veitt sérstök fjárveiting til að styðja við sveigjanlegt skólastarf.

Áætlunin gerir ráð fyrir að fyrirséðum samdrætti í tekjum verði mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana, að grunnþjónusta verði ekki skert og að öll störf verði varin. Álagningarhlutfall útsvars verður áfram 12,46% sem er með því lægsta sem gerist. Lagt er til grundvallar að tekjur lækki um 7-8% og að útsvarstekjur bæjarins verði 3.589 milljónir kr.

Almennt er gert ráð fyrir að haldið verði áfram með þær aðhaldsaðgerðir sem gripið var til á árinu 2009 en að ekki verði þörf á sérstökum aðgerðum þar til viðbótar. Meðal þeirra aðgerða var lækkun launa stjórnenda sem verða óbreytt út árið 2010.

Skuldastaða Garðabæjar er góð og bærinn er með nánast allar skuldir í ísl. kr. Langtímaskuldir nema um 2.100 milljónum kr.

Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall fasteignaskatts verði óbreytt og að fasteignagjöld hækki ekki á árinu og að gjaldskrár hækki ekki og áfram verði veittur 6 tíma afsláttur fyrir 5 ára börn í leikskóla

Að gert verði ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð íbúa og að framkvæmt verði fyrir allt að 453 milljónir kr. án lántöku. Skuldir verða greiddar niður um 340 milljónir kr.

Undirbúningur að fjárhagsáætlun að þessu sinni var óhefðbundinn að því leyti að í fyrsta skipti var leitað til íbúa um ábendingar. Íbúaþing var haldið með þátttöku tæplega 100 Garðbæinga sem lögðu fram ýmsar gagnlegar ábendingar og áherslur. Sömuleiðis gafst íbúum kostur á að koma með hugleiðingar á rafrænu formi á heimasíðu Garðabæjar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×