Viðskipti innlent

Gengisfall og húsnæðisverð hækka vísitölu neysluverðs

Gengisfall krónu ásamt viðsnúningi í þróun húsnæðisverðs eru helstu ástæður verulegrar hækkunar vísitölu neysluverðs (VNV) í maí. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitalan um 1,13% í maí.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta sé talsvert meiri hækkun en spár á markaði hljóðuðu upp á, en greiningin hafði spáð 0,4% hækkun í mánuðinum. Verðbólga lækkar því lítillega, úr 11,9% í 11,6%. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði hins vegar um 1,44% í maí og mælist verðbólga nú 15,5% á þann kvarða.

Líkt og gert ráð fyrir hækkaði eldsneyti talsvert milli mánaða, eða um 4,9% (0,22% áhrif í VNV). Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði hins vegar á heildina litið um 4,4% (0,55% áhrif í VNV), fyrst og fremst vegna 23% hækkunar á flugfargjöldum til útlanda og tæplega 5% hækkunar á verði nýrra bifreiða.

Matur og drykkur hækkaði um 0,8% á milli mánaða (0,11% í VNV), föt og skór um 0,7% (0,04% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður um 1,16% (0,09% í VNV). Þá hækkaði áfengi og tóbak um 1,3% (0,04% í VNV).

Framangreindir liðir eru allir mjög innflutningsdrifnir og er hækkun þeirra nú heldur meiri en greiningin hafði gert ráð fyrir. Gengisþróun krónu skýrir því að langmestu leyti hækkun í þessum liðum. Frá annarri viku marsmánaðar hefur gengi krónu lækkað um 19% eftir styrkingarhrinu í upphafi árs. Auk þess eru enn að koma fram síðustu áhrif frá gengishruni síðasta hausts í þeim liðum VNV sem hægast bregðast við gengisbreytingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×