Viðskipti innlent

Brugðist við kröfu hollensku sparifjáreigendanna í dag

Gerard van Vliet
Gerard van Vliet

Samtökin Icesaving Association, sem berjast fyrir því að hópur hollenskra sparifjáreigenda fái hlut sinn bættan eftir hrun Landsbankans, hafa fengið boð frá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að ráðuneytið muni taka mál þeirra til athugunar. Samtökin höfðu gefið íslenska ríkinu frest til dagsins í dag til þess að bregðast við, ella myndu þau kæra Íslendinga til Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópusambandsins á grundvelli mismununar. Undir hatti samtakanna eru 200 einstaklinga sem samtals áttu 4,2 milljarða króna á Icesave reikningum.

Gerard van Vliet, forsvarsmaður hópsins segir að ráðuneytið hafi lofað að bregðast við í dag. „Auðvitað vonumst við eftir jákvæðum viðbrögðum, en maður veit aldrei, sérstaklega þegar maður veit af þeim herskara lögfræðinga sem eru í því að veita stjórninni ráðgjöf, " segir Gerard.

Hópurinn, sem kallar sig Icesaving Association, telur að með þeirri ákvörðun Alþingis, sem mörkuð var með neyðarlögunum 6. Október síðastliðinn, að verja innistæður Íslendinga sé verið að mismuna sparifjáreigendum á grundvelli þjóðernis.

Slíkt sé óheimilt samkvæmt EES samningnum. Hópurinn krefst því að Jóhanna vinni að lausn þeirra mála og að stjórnvöld bæti þeim það fé sem tapast hafi umfram það sem hollensk stjórnvöld munu bæta. En þeir sem áttu Icesave reikninga í Hollandi fá greiddar 100 þúsund evrur frá stjórnvöldum þar í landi. Liðsmenn Icesaving eru hinsvegar þeir sem áttu meira en þetta á reikningum sínum og eins og staðan er í dag eru þeir peningar tapaðir en að sögn Gerards er um að ræða um 200 einstaklinga sem samtals áttu um 25 milljónir evra á Icesave reikningum, eða um 4,2 milljarða íslenskra króna.

„Allt í allt voru það 469 einstaklingar sem áttu meira en 100 þúsund evrur á reikningum í Hollandi, samtals um 40 milljónir evra (6,7 milljarða), en um 200 hafa gerst aðilar að Icesaving," segir Gerard. „Hinir hafa annað hvort korið að „gleyma" innistæðum sínum, látist, eða ákveðið að láta tryggingafélög sjá um sín mál."






Tengdar fréttir

Hollenskir sparifjáreigendur ætla að kæra Ísland sjötta maí

Hópur sparifjáreigenda sem átti fé á reikningum Icesave í Hollandi hefur ítrekað kröfur sínar til Jóhönnu Sigurðardóttur um að lausn verði fundin á málum þeirra. Að öðrum kosti verður lögð fram kæra gegn íslenska ríkinu þann 6. maí næstkomandi hjá Eftirlitsstofnun EFTA og hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×