Viðskipti innlent

Kostnaður vegna skilanefndar Landsbankans nam 117 milljónum

Sigríður Mogensen skrifar
Mynd/ Pjetur.
Mynd/ Pjetur.
Kostnaður Fjármálaeftirlitsins vegna skilanefndar Landsbankans frá bankahruni og fram til loka apríl nemur 117 milljónum króna. Við bankahrunið skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefndir sem tóku yfir rekstur bankanna þriggja, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans.

Áður hefur komið fram að skilanefndirnar þrjár innheimtu alls 150 milljónir króna fyrir störf sín frá því þær voru skipaðar til áramóta.

Fréttastofa hefur undir höndum kröfuskrá Landsbankans, sem birt var kröfuhöfum á mánudag. Þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið gerir kröfu í þrotabúið upp á 117 milljónir króna. Samkvæmt heimildum fréttastofu er krafan tilkomin vegna kostnaðar af störfum skilanefndar bankans, frá bankahruni og fram til loka apríl. Ætla má að launakostnaður sé þar fyrirferðamestur.

Í lok apríl var ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki breytt þannig að kostnaður vegna starfa skilanefnda yrði greiddur af þrotabúunum sjálfum, en ekki ríkissjóði. Það er í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti.

Krafa Fjármálaeftirlitsins í þrotabú Landsbankans flokkast ekki sem forgangskrafa í kröfuskránni. Miðað við væntar endurheimtur á eignum bankans mun ekkert fást upp í kröfuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×