Viðskipti innlent

Bresk bæjar- og sveitarfélög hóta málsókn gegn Glitni

Bresk bæjar- og sveitarfélög hóta nú því að höfða mál gegn slitastjórn Glitnis félögin óttast að 150 milljónir punda, eða rúmlega 30 milljarðar kr., verði ekki endurgreidd. Þetta fé var á innlánsreikningum þessara félaga í Glitni.

Í frétt um málið í blaðinu Financial Times segir að yfir 200 milljónir punda hafi legið inn á þessum reikningum í Glitni en kröfur bæjar- og sveitarfélaganna eru ekki skráðar sem forgangskröfur í kröfuhafalista bankans sem birtur var nýlega. Þar eru þær skráðar sem „almennt ótryggðar".

Stephen Jones fjármálastjóri Samtaka sveitarfélaga í Bretlandi (LGA) er væntanlegur til Íslands í þessari viku. Ætlar hann að sitja kröfuhafafund sem boðaður verður síðar í vikunni og útskýra þar málstað félaganna.

LGA óttast að félögin muni aðeins endurheimta 25-30% af innistæðum sínum. Margaret Eaton formaður LGA segir að ákvörðun Glitnis um að setja þeirra kröfur ekki í forgang væri „misvísandi og ylli áhyggjum".

Í fréttinni er bent á að kröfur bæjar- og sveitarfélaganna í Landsbankann hefðu verið skilgreindar sem forgangkröfur. Því væri reiknað með nær fullum endurheimtum af þeim 414 milljónum punda sem þar lágu inni.

Steinunn Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis segir í samtali við Financial Times að slitastjórnin hafi gert ráð fyrir því að bresk yfirvöld myndu vísa ákvörðun stjórnarinnar fyrir íslenska dómstóla. Steinunn segir að ástæða þess að kröfur félaganna hefðu ekki verið úrskurðaðar forgangskröfur væri vegna þess að samkvæmt íslenskum lögum væru þær flokkaðar sem lán til bankans en ekki innistæður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×