Viðskipti innlent

Staðlað samkeppnismat verði skylda hjá stjórnvöldum

Samkeppniseftirlitið hefur í dag beint því til forsætisráðherra að stuðla að því að stjórnvöldum verði gert skylt að framkvæma staðlað samkeppnismat í tengslum við undirbúning að setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla.

Í frétt um málið á vefsíðu eftirlitsins segir að þessi tilmæli koma fram í sérstöku áliti, nr. 2/2009, Samkeppnismat stjórnvalda, sem nálgast má á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Markmið með samkeppnismati er að fá opinbera aðila til að meta með sjálfstæðum hætti hvaða áhrif tiltekin reglusetning hefur á samkeppnismarkaði. Telja verður að samkeppnismat geti stuðlað að því að markaðir opnist eða haldist opnir og þannig verði komið í veg fyrir óþarfar opinberar aðgangshindranir, þ.e. hindranir nýrra fyrirtækja við að komast inn á nýja markaði eða vaxa við hlið stærri fyrirtækja.

Tillögur Samkeppniseftirlitsins gera ráð fyrir einfaldri aðferð við samkeppnismat. Þannig er notast við fjórar grundvallarspurningar sem skera eiga úr um það hvort ítarlegra samkeppnismat þurfi að fara fram.

Ef þess er þörf þá eru sex stöðluð atriði sem þarf að skoða nánar. Með því að samkeppnismat sé staðlað og einfalt eru meiri líkur á því að stjórnvöld nýti sér kosti þess. Þá telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að við endurskoðun á Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa verði bætt við sérstöku kafla um samkeppnismat.

Með því að draga úr samkeppnishamlandi áhrifum opinberrar reglusetningar er verið að viðhalda og auka virka samkeppni. Slík vinnubrögð hjá hinu opinbera stuðla að kraftmiklu atvinnulífi til lengri tíma og eykur ávinning neytenda. Þetta er ekki síst mikilvægt við endurreisn efnahagslífsins.

Undanfarin misseri hafa verið færð ítarlög rök fyrir því að aðgerðir til þess að viðhalda eða efla samkeppni stuðli að hraðari endurreisn atvinnulífsins og séu því rétt viðbrögð við efnahagskreppu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×