Viðskipti innlent

Mikil eftirspurn eftir verbúðaplássi við Grandagarð

Faxaflóahafnar auglýsa í dag verbúðir við Grandagarð og Geirsgötu til leigu. Gísli Gíslason hafnarstjóri segir að mikil eftirspurn hafi verið í dag eftir þessum plássum enda staðsetning þeirra talin mjög góð í borginni.

Um er að ræða tiltekin rými í verbúðum, bæði á Grandagarði og við Geirsgötu sem hafa verið auglýst til leigu. Gísli segir að stærstu rýmin séu um 100 fm að stærð.

Í skipulagi er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á lóðum verbúðanna og Faxaflóahafnir sf gera ráð fyrir því að í leigurýmunum verði starfsemi sem dragi að fólk og stuðli að fjölbreyttu mannlífi við höfnina.

Töluverð starfsemi er fyrir í verbúðunum. Má þar nefna Sægreifann og Sushismiðjuna við Geirsgötuna og trillukarla við Grandagarð.

Gísli segir að hafnarstjórn vilji að þeir trillukarlar sem eru virkir við höfnina haldi sínum plássum í verbúðunum. Í þau pláss hinsvegar sem nú eru eingöngu notuð sem geymslur á að reyna að fá meiri og líflegri starfsemi inn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×