Viðskipti innlent

Misskilningur hjá starfsmanni Danske Bank

Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi Landsbankans segir að frétt á forsíðu Vísis um yfirfærslu gjaldeyris úr Danske Bank til Landsbanka er byggð á misskilningi.

„Danske Bank sendir allar greiðslur til Íslands til Seðlabanka Íslands sem síðan millifærir á viðkomandi banka, NBI, Íslandsbanka, eða Arion. Enginn munur er á bönkunum hvað þetta varðar. Landsbankanum berast daglega fjöldi slíkra greiðslna," segir Kristján. „Starfsmaðurinn hefur væntanlega ekki verið með þetta á hreinu."

Visir.is barst einnig tölvupóstur frá Rúnari Magnússyni sem búsettur er í Kaupmannahöfn. Hann segir að fréttin passi illa inn í sinn verkuleika þar sem hann millifæri fé mánaðarlega frá Danske Bank til Landsbankans. Síðast í gær.

„Það hefur aldrei verið neitt vesen fyrir mig. Svo þetta getur varla passað að þetta sé einhver regla hjá Danske Bank," skrifar Rúnar. „Annað hvort illa upplýstur starfsmaður eða einhverjar sérstakar aðstæður í gangi þarna. Ég geri þetta reyndar sjálfur með netbanka, veit ekki hvort í því felst einhver munur. Nema að þá sleppur maður við að þurfa að eiga við einhvern vitlausan bankastarfsmann."




Tengdar fréttir

Danske Bank neitar að millifæra fé til Landsbankans

Sigurður Jónsson þriggja barna fjölskyldufaðir lenti í því nýlega að geta ekki fengið lítilisháttar séreignasparnað sinn og konu sinnar millifærðan frá Danmörku inn á reikning sinn í Landsbankanum. Danske Bank neitaði að millifæra upphæðina og fékk Sigurður þau skilaboð frá starfsmanni Danske Bank að slíkt væri algerlega óheimilt þar sem Landsbankinn ætti í hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×