Viðskipti innlent

Danske Bank neitar að millifæra fé til Landsbankans

Sigurður Jónsson þriggja barna fjölskyldufaðir lenti í því nýlega að geta ekki fengið lítilisháttar séreignasparnað sinn og konu sinnar millifærðan frá Danmörku inn á reikning sinn í Landsbankanum. Danske Bank neitaði að millifæra upphæðina og fékk Sigurður þau skilaboð frá starfsmanni Danske Bank að slíkt væri algerlega óheimilt þar sem Landsbankinn ætti í hlut.

Sigurður segir að upphæðin sé ekki há, eða um 2.700 danskar kr., og stafar frá þeim tíma að þau hjónin unnu um fimm ára skeið í Danmörku í kringum síðustu aldamót.

„Þessi upphæð var lögð inn á reikning sem við áttum í Danske Bank og síðan vildum við millifæra hana inn á reikning okkar í Landsbankanum en það reyndist vera bannað að gera slíkt í Danske Bank. Hinsvegar vorum við spurð hvort ekki væri hægt að millifæra upphæðina inn á reikninga í öðrum bönkum á Íslandi," segir Sigurður sem er nokkuð forviða á málinu öllu.

„Þegar ljóst var að við áttum ekki aðra reikninga á Íslandi til að millifæra upphæðina á bauðst Danske Bank til að senda okkur ávísun í pósti sem við þáðum," segir Sigurður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×