Erlent

Svakalegt blóðbað í Nepal

Óli Tynes skrifar
Maður býr sig undir að höggva af haus innan um hræ af dýrum sem þegar hafa verið drepin.
Maður býr sig undir að höggva af haus innan um hræ af dýrum sem þegar hafa verið drepin.

Ekki tókst að koma í veg fyrir að yfir 300 þúsund dýrum væri slátrað á fórnarhátíð til dýrðar gyðjunni Gadhimai í Nepal í gær.

Dýrin voru drepin með því að höggva af þeim hausinn. Gadhimai er gyðja máttar samkvæmt trú hindúa.

Hundruð þúsunda manna mætti með sveðjur og sverð til þess að drepa dýrin. Mörg voru nánast tryllt af skelfingu yfir blóðlyktinni og öskrunum og reyndu að komast undan.

En þau voru miskunnarlaust elt uppi og höggvin. Öskrandi af blóðþorsta sveifluðu menn sveðjun sínum í allar áttir þegar þeir hlupu til þess að finna sér nýtt dýr að drepa.

Kannski áttu þar við orð leikkonunnar og dýravinarins Brigitte Bardot, sem skrifaði forseta Nepals til þess að reyna að koma í veg fyrir blóðbaðið.

Í bréfi sínu sagði hún að drukknir menn höggvi þar hausana af þúsundum skelfingu lostinna uxa.

Fórnarhátíðin er haldin á fimm ára fresti og er þá slátrað uxum, fuglum, geitum, kindum, svínum og rottum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×