Viðskipti innlent

Íslenska bankakerfið fær falleinkunn hjá Fitch

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson

„Þessi matsfyrirtæki hafa lengi legið undir ámæli fyrir að hafa verið of jákvæð gagnvart bönkunum í mestu uppsveiflunni. Því er skiljanlegt að þau vilji fara í hina áttina nú. Matið má því skoða að hluta sem tilraun Fitch til að verða sér úti um trúverðugleika á kostnað íslenskra banka. Þeir liggja vel við höggi," segir Þórólfur Matthíasson, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, um falleinkunn íslenska bankakerfisins.

Lítið að gera í bankanum Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch segir of snemmt að segja til um hvort farið sé að draga úr kerfisáhættu fjármálakerfisins. Áhersla er lögð á hægan útlánavöxt bankanna.Fréttablaðið/Vilhelm

Það er alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch sem gefur bankakerfinu þessa afleitu einkunn, eða BSI E. Á botninum eru tólf lönd, þar á meðal Víetnam. Ekki er útilokað að fleiri lönd bætist á hann á næstu skýrslu, að mati Fitch. Þar koma helst til greina Aserbaídsjan, Hvíta-Rússland, Eistland og Litháen.

Í næsta flokki fyrir ofan Ísland eru Írland og Belgía með einkunnina BSI D.

Meirihluti landa með þróað hagkerfi lenda ýmist í flokki B eða C. Enginn vermir efsta flokk. Ástralía, Hong Kong og Kanada komast þó næst því.

Matsfyrirtækið segir í skýrslu sinni að þótt engin breyting hafi orðið frá fyrra mati sé of snemmt að segja til um hvort nú dragi úr kerfisáhættu fjármálakerfisins. Sérstaklega er bent á hægan útlánavöxt bankageirans. Hann hefur að meðaltali dregist saman um 2,5 prósent á árinu frá í fyrra. Þetta er engu að síður jákvætt frá í fyrra en þá drógust útlán saman um fimmtán prósent milli ára. Þetta segir Fitch vísbendingar um að stöðug­leiki sé að færast yfir fjármálaheiminn og séu fá alvarleg hættumerki í loftinu.

Þórólfur segir margt ógert í bankakerfinu. „Það er ekki enn búið að hreinsa upp úr bankakerfunum. Í sumum tilvikum er ekki vitað hvað leynist í þeim. Enn kunna því erfið mál að vera eftir," segir hann. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×