Viðskipti innlent

Greining: Um 7,5% samdráttur í landsframleiðslu á árinu

Greining Arion banka telur að samdráttur í landsframleiðslu landsins í heild á þessu ári muni nema um 7,5%. Eins og fram kom í fréttum í gærdag dróst landsframleiðsla á fyrstu þremur fjórðungum ársins saman um 6% frá sama tímabili í fyrra.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að hagvaxtartölurnar gefa vísbendingu um að einkaneyslan dragist minna saman á þessu ári en spáð hafði verið. Að sama skapi stefnir allt í að samdráttur landsframleiðslu verði minni en spár Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir. Gangi þetta eftir batna forsendur fjárlaga ríkisstjórnarinnar nokkuð fyrir vikið.

„Minni slaki í þjóðarbúinu gæti skapað hættu á því að verðbólgan gangi hægar niður en Seðlabankinn hafði vonast til. Við teljum að hinar nýbirtu hagvaxtartölur skjóti frekari stoðum undir þá skoðun okkar að aðhald verði óbreytt á næst fundi bankans. Við teljum þó að aðrir þættir svo sem gengi krónunnar og verðbólguþróun skipti mestu máli fyrir vaxtaákvarðanir bankans í augnablikinu," segir í Markaðspunktnum.

Greiningin segir að ýmislegt fleira áhugavert megi lesa úr nýbirtum hagvaxtartölum. Á sama tíma og þjóðarútgjöld hafa dregist saman um 21% á fyrstu níu mánuðum ársins þá mælist eingöngu 6% samdráttur í landsframleiðslu. Mismunurinn endurspeglast í verulegum samdrætti innflutnings sem hefur náð að hífa upp landsframleiðsluna. Áhrif vegna þessa hverfa hins vegar nú á fjórða ársfjórðungi og verður því heldur meiri samdráttur landsframleiðslu á lokafjórðungi ársins.

Einkaneysla er stærsti liður landsframleiðslunnar, með 50% hlutdeild í dag en þegar hæst lét náði hlutdeild hennar 60%. Samdráttur í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi 2009 mældist 13% sem er heldur minni samdráttur en mælst hefur í fjórðungunum þar á undan en á fyrstu níu mánuðum ársins mældist 18,5% samdráttur milli ára. Hér gæti því verið vísbending um ákveðinn viðsnúning, þ.e. að samdráttur einkaneyslu fari minnkandi og ekki ólíklegt að við sjáum vöxt í einkaneyslu strax á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Áfram er verulegur samdráttur í fjárfestingu, en samdráttur á fyrstu níu mánuðum ársins er í kringum 50%. Allir liðir fjárfestingar (atvinnuvegir, hið opinbera og íbúðarhúsnæði) dragast verulega saman. Í dag vegur fjárfesting í kringum 15% af landsframleiðslu en þegar stóriðjuframkvæmdir stóðu sem hæst á árunum 2006-2007 þá var hlutdeild fjárfestingar í kringum 30-40%.

Algjört hrun mældist í innflutningi á fjórða ársfjórðungi 2008 og hefur innflutningur haldist á því stigi það sem af er ári. Því hefur gríðarlegur samdráttur innflutnings mælst milli ára að undanförnu, jafnvel þótt breytingin milli fjórðunga hafi verið jákvæð að meðaltali.

Á næsta fjórðungi má hinsvegar gera ráð fyrir vexti innflutnings milli ára þar sem fyrrnefnd áhrif detta út úr mælingunni. Þetta hefur neikvæð nettó áhrif á utanríkisviðskiptin og þar með neikvæð áhrif á mældan hagvöxt. Því má gera ráð fyrir að samdráttur landsframleiðslu á fjórða ársfjórðungi 2009 fari upp í tveggja stafa prósentutölu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×