Viðskipti innlent

Gróf mismunun á milli tekjuhópa

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Mynd/GVA
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segir að það sé mikill og alvarlegur misskilningur hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans að stilla þrepaskiptum skatti og verðtryggingu persónuafsláttar upp sem valkosti sem útiloki hvorn annan.

„Sá valkostur sem við stóðum frammi var að til að ná neðra skattþrepinu stóð til að fresta verðtryggingunni um ein áramót - sem þýðir minni hækkun persónuafsláttar núna gegn lægra skatthlutfalli - en ekki um hver áramót hér eftir," segir Gylfi í tilkynningu.

Afar mikilvægt er að eftir að lægra þrepið hefur verið tekið upp fylgi persónuafsláttur verðlagi því að öðrum kosti mun skattbyrði lágtekjufólks halda áfram að hækka, að mati Gylfa.

Gylfi segir að það eigi lítt skylt við áform um að verja þá tekjulægstu að láta persónuafslátt og þar með skattleysismörkin vera óbreyttan að nafnverði um ómunatíð en tengja síðan milli- og efri tekjumörkin, sem séu 200 og 450 þúsund krónur, við launavísitölu.

„Þetta er að mínu mati gróf mismunun á milli tekjuhópa sem mun leiða til þess að skattbyrði lágtekjufólks fari sífellt fara hækkandi (eins og reynslan var milli 1990-2006!), á meðan skattbyrði milli- og hátekjuhópa er varin vegna tengingar markanna við launavísitölu. Það sem átti að vera aðgerð til að skapa meiri sátt milli tekjuhópa er í rauninni rofinn með þessu," segir í tilkynningu Gylfa.

Hann skorar á þingmenn meirihlutans að koma í veg fyrir þetta. Almennt launafólk treysti þingmönnum til að standa vörð um þá tekjulægstu og bregðist þeir því trausti muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir trúverðugleika þeirra til langs tíma. „Sérstaklega þegar það er haft í huga að það var í tíð vinstri stjórnar sem verðtrygging persónuafsláttar var afnumin árið 1989."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×