Erlent

Sendinefnd kannar dráp á ungmennum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Götulíf í afganistan Afgönsk kona bakar brauð í þorpi nærri Kabúl. Erlendir hermenn eru nú sakaðir um að hafa drepið óbreytta borgara á átakasvæði i Kunar-héraði í austurhluta landsins.
Götulíf í afganistan Afgönsk kona bakar brauð í þorpi nærri Kabúl. Erlendir hermenn eru nú sakaðir um að hafa drepið óbreytta borgara á átakasvæði i Kunar-héraði í austurhluta landsins. Fréttablaðið/AP
Opinber nefnd skipuð af Hamid Karzai, forseta Afganistan, rannsakar fregnir af því að tíu óbreyttir borgarar hafi verið drepnir í skærum þar sem þátt tóku erlendir hermenn á sunnudaginn var. Í hópnum eiga að hafa verið átta námsmenn.

Karzai hefur fordæmt drápið, en atburðurinn átti sér stað á átakasvæði í austurhluta landsins, þorpi í Narang-umdæmi í Kunar-héraði.

Dráp á almenningi er með erfiðustu málum fyrir erlenda setuliðið í Afganistan. Þótt fleiri borgarar falli fyrir hendi Talíbana þá ýtir dráp herafla Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins (NATO) á borgurum undir andúð á veru hermannanna í landinu og grefur undan tilraunum þeirra til að veikja uppreisnarliða.

Ásökunin er sögð alvarlegasta dæmið um dráp vestrænna hermanna á óbreyttum borgurum í Afganistan frá því snemma í desember, þegar embættismenn stjórnvalda greindu frá því að tólf borgarar hefðu verið drepnir í loftárás í Laghman-héraði. NATO neitaði þeim ásökunum.

„Forsetinn varð mjög hryggur og reiður þegar hann heyrði fréttirnar,“ sagði Waheed Omar, talsmaður Karzais forseta í gær, þriðjudag. Hann gagnrýndi stjórn herafla Bandaríkjanna og NATO í Afganistan og sagði að hernaðaraðgerðirnar á sunnudag hefðu átt að hafa verið í samstarfi við þjóðarher Afganistans.

„Þjóðarher okkar annast nú um 60 prósent af aðgerðum,“ sagði Omar og bætti við að mannfall óbreyttra borgara væri minna þegar afganskir hermenn ættu hlut að máli.

Fulltrúi NATO sagði að hernaðaraðgerðirnar í Kunar á sunnudag hefðu verið í samstarfi bandarískra og afganskra hermanna og að herflugvélum hafi ekki verið beitt. Fulltrúinn baðst undan því að vera nafngreindur til þess að trufla ekki aðkomu erlenda herliðsins að rannsókn stjórnar Afganistans á atburðinum.

Hann segir að í aðgerðinni á sunnudag hafi verið fylgt eftir rannsókn á uppreisnarhópi sem fylgst hafði verið með í nokkurn tíma og talinn bera ábyrgð á árásum á afganska og erlenda hermenn með heimagerðum sprengjum. Vopn og sprengjubúnaður á staðnum hafi verið staðfesting þess að hinir föllnu, allt ungir karlmenn, hafi verið uppreisnarmenn.

Zaman Mamozai, yfirmaður landamæralögreglunnar á svæðinu, sagði jafnframt í gær að þeir sem voru drepnir hafi allir verið uppreisnarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×