Viðskipti innlent

Hlutafjárútboð sameinaðs jarðhitafélags skilaði 21 milljarði

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Jarðhitavirkjun.
Jarðhitavirkjun. Mynd/Valli

Hlutafjárútboð kanadíska félagsins GTO Resources Inc. skilaði 21 milljarði króna. Hlutaféð var selt í tengslum við sameiningu GTO við þrjú harðhitafélög; Polaris Geothermal, Ram Power Incorporated og Western Geopower. Tvö síðarnefndu félögin eru að hluta í eigu Geysis Green Energy.

Í tilkynningu frá Geysi Green Energy segir að samruni félaganna fai þannig fram að kanadíska félagið GTO gerir hluthöfum félaganna, RPI, WGP og GEO tilboð um að skipta á hlutafé sínu og hlutafé í GTO. Stærstu hluthafar félaganna, þar með talinn Geysir, hafa þegar samþykkt að skipta hlutafé sínu fyrir hlut í GTO.

Í tengslum við samrunann hefur nýtt hlutafé að upphæð 179 milljónir kanadadollara verið selt til nýrra fjárfesta. Nú tekur við kynningartímabil þar sem samruninn er kynntur fyrir almennum hluthöfum félaganna.

Þann 3. nóvember greiðist hið nýja hlutafé til GTO sem á sama tíma mun taka upp nafnið Ram Power Corporation. Hlutafé þess verður skráð í kauphöllinni í Toronto í Kanada. Hlutur Geysis í hinu sameinaða félagi verður um 6%.

Starfsemi Ram Power Incorporated, Western Geopower og Polaris Geothermal er á sviði jarðhitanýtingar til raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum, Kanada og Níkaragva.

Haft er eftir Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra Geysis Green Energy, að skráning hins sameinaða félags undirstriki aukið mikilvægi jarðhitaiðnaðarins vestanhafs. Með því að stuðla að sameiningu félaganna og sölu á nýju hlutafé hins sameinaða félags sé talið að fjármögnun verkefna tengdum Geysi í Norður Ameríku betur tryggða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×