Viðskipti innlent

Yfir 42 milljarða viðsnúningur til hins verra hjá ríkissjóði

Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrsta ársfjórðung ársins er handbært fé frá rekstri neikvætt um 4,9 milljarða kr., sem er 42,6 milljörðum lakari útkoma en á sama tímabili í fyrra.

Greint er frá þessu í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins. Þar segir að innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum ársins voru 122 milljarðar kr. sem er um 6 milljörðum kr. lægri tekjur en á sama tíma árið 2008. Áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir að innheimtar tekjur yrðu um 130 milljarðar kr. og er frávikið því um 8 milljarðar kr.

Munar þar mest um lægri skatta á vöru og þjónustu en gert var ráð fyrir í áætluninni. Skatttekjur og tryggingagjöld námu tæplega 107 milljarðar kr. og drógust saman um 26,1% að raunvirði miðað við hækkun almenns verðlags.

Greidd gjöld nema 123,2 milljarðar kr. og hækka um 32,1 milljarða kr. frá fyrra ári. Milli ára hækka útgjöld mest til almennrar opinberrar þjónustu um 15,8 milljarða kr., þar sem vaxtagreiðslur ríkissjóðs skýra 14,3 milljarða kr.

Útgjöldin eru 3,2 milljarða kr. innan áætlunar og skýrist það að mestu af því að framkvæmdir í samgöngumálum og annarri fjárfestingu fara hægar af stað en gert hafði verið ráð fyrir.

Lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs er neikvæður um 1,4 milljarða kr. í mars á móti jákvæðum lánsfjárjöfnuði 33,7 milljarða kr. á sama tíma í fyrra. Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 64 milljónir króna og lækkar um 35,5 milljarða kr. milli ára sem skýrist með lækkun á handbæru fé frá rekstri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×