Viðskipti innlent

Leita nýrra tækifæra í samdrætti

Risaþota eins og þessi hér er nú til taks á Gardemoen flugvelli í Osló í Noregi undir merkjum Sundt Atlanta Skybridge tilbúin í til að flytja varning til fjarlægra landa.
Risaþota eins og þessi hér er nú til taks á Gardemoen flugvelli í Osló í Noregi undir merkjum Sundt Atlanta Skybridge tilbúin í til að flytja varning til fjarlægra landa.

Air Atlanta Icelandic og norska einkaþotuleigan Sundt Air hafa hafið samstarf undir heitinu „Sundt Atlanta Skybridge“.

Tilgangur samstarfsins er sagður vera að kanna möguleika á markaðssetningu fraktflugs til fjarlægra landa með varning frá Skandinavíu. Fyrstu skref samstarfsins voru tekin í gær þegar tekin var í notkun Boeing 747-200F risaþota sem nota á í flutninginn. Um er að ræða þriggja mánaða tilraunaverkefni, hefur norski fréttavefurinn e24.no eftir Tor Bratli, forstjóra Sundt Air. Enn hafa vélinni ekki verið tryggð verkefni, en félagið hefur þó þegar fengið fyrirspurnir. Þá hefur verðskrá ekki verið búin til enn.

„Við sitjum við að reikna út verð, en við fengum fyrirspurn frá Rauða krossinum um flutninga til Sri Lanka. Þar reiknast okkur til að verðmiðinn sé 300.000 dalir [rúmar 38 milljónir króna] fram og til baka,“ segir Bratli.

Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta, segir aðstæður á markaði hafa ráðið því að leitað var þessa samstarfs við norska félagið, en vegna efnahagssamdráttar hefur á heimsvísu orðið 25 til 30 prósenta samdráttur í fraktflugi.

„Við vorum með vél sem var að losna af samningi í Mið-Austurlöndum og hún endaði sitt flug í Evrópu. Frekar en að láta hana standa fórum við með hana til Oslóar og í samstarf við þetta norska félag,“ segir hann. Fyrsta kastið er gert ráð fyrir að leigja vélina í stök verkefni, segir Hannes, en jafnframt sé verið að kanna frekari tækifæri á markaði með Sundt Air.

„Við horfum til þess hvort aðstæður leyfi að hefja áætlunarflug með vörur út úr þessum markaði. Við erum svona að hugsa dálítið „út fyrir boxið“ með að finna þessari vél verkefni sem annars hefði staðið aðgerðalaus.“

Helst segir Hannes horft til tækifæra í að flytja lax og iðnaðarvarning til Bandaríkjanna. „En þetta er dæmi sem þarf að skoða vandlega,“ segir hann. Ekki verði farið út í áætlunarferðir með frakt án þess að það dæmi hafi verið reiknað til enda og vélin nýtist báðar leiðir.

Í viðtali e24.no við forstjóra Sundt Air kemur jafnframt fram að forsvarsmenn félagsins séu í góðu sambandi við framleiðendur fiskmetis í Noregi og hafi þegar hafið viðræður við framleiðendur víðar á Norðurlöndum.

Sundt Air er í eigu fjölskyldu milljarðamæringsins Pette C. G. Sundt og nokkuð gróið á sínu sviði í umsýslu flugvéla og leigu á einkaþotum. Félagið er sagt skuldlítið og í góðri stöðu til að kanna ný tækifæri á markaði með Air Atlanta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×