Skoðun

Fortíðarvandi nýju bankanna

Mestur hluti útlána íslenzku bankanna í lok september 2008 var fjármagnaður með erlendum lánum. Bankarnir voru því milliliðir erlendra fagfjárfesta og lántakenda innanlands og utan. Í septemberlok voru almenn innlán í krónum um 1.300 milljarðar eða um 8,4% af 14.000 milljarða heildarskuldum bankanna. Þar af voru innlendar skuldir liðlega 3500 milljarðar og erlendar skuldir rúmir 10.300 milljarðar.

Áætlanir um endurreisn bankakerfisins hafa frá upphafi byggt á þeirri hugmynd að nýir bankar tækju yfir hluta af eignum og skuldum gömlu bankanna. Nýju bankarnir myndu síðan veita atvinnulífi og heimilum landsins almenna bankaþjónustu en láta skilanefndum gömlu bankanna eftir uppgjör þrotabúa þeirra. Eins og Jón Gunnar Jónsson bankamaður hefur nýlega bent á er mikilvægt að aðferðafræðin við uppstokkun bankakerfisins miði fyrst og fremst að því að nýju bankarnir verðskuldi fullt traust markaðsaðila innanlands og utan í kjölfar endurreisnarinnar. Það verður bezt tryggt með því að 1.300 milljarða innlánin verði yfirtekin af nýju bönkunum ásamt samsvarandi hluta (vafasamra) eigna gömlu bankanna á niðurfærðu verði sem samið yrði um við kröfuhafa gömlu bankanna. Í þessu sambandi hefur komið fram að matsfyrirtækin Deloitte og Oliver Wyman hafa verðmetið eignasafn gömlu bankanna á forsendum sem taka ekki mið af breyttum horfum í efnahagsmálum heims frá sl. hausti. Það er hins vegar áríðandi fyrir trúverðugleika nýju bankanna á komandi tíð að umsamið verð á yfirteknum eignum gömlu bankanna sé ekki umfram raunhæft markaðsvirði þeirra.

Áreiðanlegar upplýsingar vantar um skuldir sjávarútvegsfyrirtækja við gömlu bankana, sem fjármálaráðherra sagði á Alþingi 5. marz sl. að væru þrefaldar eða fjórfaldar árstekjur sjávarútvegs. Vaxtakostnaður einn og sér jafngildir því stórum hluta ársteknanna. Það væru því alvarleg mistök sem myndu flækja endurreisn bankakerfisins ef fortíðarvandi/skuldir sjávarútvegs væru fluttar í nýju bankana. Samkvæmt íslenzkum lögum er úthlutaður kvóti ekki varanleg eign einstakra kvótahafa. Þeir erlendu kröfuhafar sem lánað hafa íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum fjármagn gegn veðum í slíkum kvóta taka með því áhættu sem er á þeirra eigin ábyrgð.

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×