Viðskipti innlent

Íslenskir launamenn með þeim ódýrustu í Vestur-Evrópu

Íslenskir launamenn eru nú mun ódýrari starfskraftur í samanburði við nágrannalönd okkar en raunin var undanfarin ár. Raunar er vandfundið land í Vestur-Evrópu með ódýrari launamenn en Ísland.

Lækkun raungengis miðað við hlutfallslegan launakostnað nemur 29% ef annar fjórðungur þessa árs er borinn saman við sama tímabil í fyrra, og sé farið tvö ár aftur í tímann nemur lækkunin rúmlega 42%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta þýði að kraftar íslenskra launþega hafa að jafnaði lækkað í verði gagnvart starfsbræðrum þeirra í viðskiptalöndum okkar sem þessu nemur.

Trúlega er það land vandfundið í Vestur-Evrópu þar sem vinnuafl er að jafnaði ódýrara þessa dagana. Þessi þróun hjálpar útflutningsatvinnuvegum, sem og þeirri innlendu starfsemi sem á í samkeppni við innflutning.

Á hinn bóginn gerir hin mikla lækkun kaupmáttar í samanburði við nágrannalöndin það meira freistandi fyrir íslenska launamenn að flytja búferlum en ella, sér í lagi ef kaupmáttur þeirra á erlendri grundu helst lágur um lengri tíma eftir að atvinnuástand batnar á nýjan leik í nágrannalöndum okkar.

Raungengi íslensku krónunnar er nú líklega lægra en nokkru sinni áður frá því hún sagði skilið við hina dönsku stóru systur sína árið 1922. Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabanka lækkaði raungengi krónu á öðrum fjórðungi ársins um ríflega 10% frá fyrsta ársfjórðungi ef miðað er við hlutfallslegt neysluverð en um rúm 13% ef miðað er við hlutfallslegan launakostnað.

Við útreikning á raungengi eru breytingar á nafngengi krónu í raun leiðréttar fyrir hlutfallslegum breytingum verðlags og launa hérlendis og í viðskiptalöndum okkar. Því má segja að Ísland hafi verið 10% ódýrara heim að sækja á vordögum en í upphafi árs, en að kaupmáttur íslenskra launþega á erlendri grundu hafi minnkað um 13% á sama tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×