Viðskipti innlent

Skuldtryggingarálagið á svipuðum slóðum og fyrir hrun

Skuldatryggingarálagið á ríkissjóði er nú á svipuðum slóðum og það var fyrir hrun íslensku viðskiptabankanna í október í fyrra. Skuldatryggingarálag ríkisins var að meðaltali 1.017 punktar í október í fyrra og 328 punktar í september sama ár. Það sem af er nóvember hefur álagið aftur á móti verið að meðaltali 348 punktar.

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að skuldatryggingarálag á íslenska ríkið hefur lækkað umtalsvert frá áramótum. Hæst fór það í tæpa 1.100 punkta, í lok febrúar, en hefur síðan þá lækkað myndarlega. Þann 2. nóvember síðastliðinn var skuldatryggingarálagið svo komið niður í 338 punkta, en hefur hækkað lítillega og stendur nú í 368 punktum.

Einn helsti mælikvarði á áhættusmekk fjárfesta, þ.e. áhættusókn eða -fælni, er svokölluð VIX-vísitala. Hún mælir vænt flökt S&P 500 vísitölunnar samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni. Hefur þróun vísitölunnar og skuldatryggingarálags ríkisins þróast á svipaðan hátt síðustu 12 mánuðina. Sömuleiðis hefur ITRAXX skuldatryggingavísitalan verið tiltölulega stöðug í haust þótt hún hafi frekar lækkað en hækkað upp á síðkastið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×