Viðskipti innlent

Tap Skipta 2,1 milljarður á fyrri hluta árs

Tap Skipta á fyrri hluta árs nam 2,1 milljarði króna sem skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar á tímabilinu. Tap á sama tímabili árið 2008 var 4,0 milljarðar króna. Skipti á meðal annars Símann og er fyrirtækið í eigu Exista.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf. hefur eftirfarandi að segja um afkomu félagsins:

„Fyrri hluti ársins einkenndist af mikilli óvissu í rekstrarumhverfi Skipta. Samdráttur var í einkaneyslu á Íslandi sem er stærsti markaður fyrirtækisins. Þá veiktist íslenska krónan enn frekar sem skýrir að mestu tap félagsins á tímabilinu. Miðað við þessar aðstæður erum við sátt við afkomuna."

Hann segir að tekist hafi að laga kostnaðaruppbyggingu félagsins að minnkandi eftirspurn og hagnaðurinn fyrir fjármagnsliði og afskriftir er því svipaður og í fyrra.

„Mikil samkeppni er á fjarskiptamarkaðinum og í kjölfar gjaldþrots Teymis er ríkisvaldið nú orðið þátttakandi á fjarskiptamarkaði í gegnum eignarhald sitt á bönkunum. Afar mikilvægt er að við slíkar aðstæður gæti yfirvöld vel að því að samkeppni á markaðnum sé eðlileg og í samræmi við leikreglur. Við munum áfram gæta aðhalds í rekstrinum og erum hóflega bjartsýn á afkomuna á síðari hluta ársins," segir Brynjólfur.

Skipti hf. er eignarhaldsfélag með eignir bæði á Íslandi og erlendis. Skipti hf. einbeitir sér að fyrirtækjum sem starfa á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Markmið félagsins er að fjárfesta í vel reknum fyrirtækjum á traustum grunni með mikla möguleika til vaxtar. Skipti eiga fyrirtæki með rekstur á Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandseyjum.

Stærsta einstaka eign Skipta er Síminn, sem félagið eignaðist haustið 2005.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×