Viðskipti innlent

Bókfært virði 200 milljörðum hærra en markaðsvirði

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Frá aðalfundi Exista 2008.
Frá aðalfundi Exista 2008. Mynd/Anton Brink

Exista færði eignarhluti sína í Kaupþingi og fleiri félögum á tæplega 200 milljarða króna meira virði í bækur sínar en markaðurinn sagði til um. Bókhaldsaðferðin er þó fullkomlega lögleg.

Í upphafi árs 2007 var tekin sú ákvörðun að færa eignarhluti Existu í Kaupþingi og finnska fjármálafyrirtækinu Sampo samkvæmt svokallaðri hlutdeildaraðferð. Það þýðir að markaðsvirði hlutanna er ekki notað heldur er stuðst við afkomu félaganna til að meta virði þeirra. Sé litið á uppgjör á þriðja ársfjórðungi síðasta árs má sjá að munur á bókfærðu verði og markaðsvirði er rúmlega 180 milljarðar króna.

Á mannamáli þýðir þetta að markaðurinn mat verðmæti eignarhlutanna á tæplega 500 milljarða en bókhald Existu rúmlega 680 milljarða. Hefði markaðsvirði félaganna verið notað í stað hlutdeildaraðferðar hefði eigið fé Existu verið um 37% lægra.

Stjórnendur Existu sögðu í viðtölum að þessi aðferð væri betri þar sem félögin væru mjög sterk og meira virði en markaðurinn segði til um. Sé tekið tillit til fréttaflutnings síðustu mánaða má hinsvegar setja spurningarmerki við hvort afkoma Kaupþings hafi verið jafn sterk og talið var.

Sampo var einnig selt ásamt tryggingarrisanum Storebrand með mörg hundruð milljarða tapi og hefði markaðsverð því verið betri fulltrúi fyrir verð eignanna en hið bókfærða verð. Fréttastofa hefur í dag rætt við nokkra endurskoðendur sem efast um að hin svokallaða hlutdeildaraðferð verði lögleg reikningsskilaaðferð í framtíðinni.

Hún geri almenningi sem fjárfesti í hlutabréfum erfiðara fyrir með að meta hið raunverulega virði félaganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×