Viðskipti innlent

Háir vextir líklegir næstu þrjú árin

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Háir vextir eru líklega komnir til að vera, að minnsta kosti næstu þrjú árin ef Seðlabankinn breytir ekki þeim forsendum sem bankinn leggur til grundvallar stýrivaxtaákvörðun sinni.

Þetta má lesa út úr áliti Greiningardeildar Kaupþings sem segir rökin fyrir neðangreindri spá sinni vera forsendur peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að vextir lækki ekki fyrr en gengi krónunnar styrkist.

Greiningardeildin telur alls óvíst hvort gengi krónunnar muni styrkjast frá núverandi gildi á komandi ári. Deildin telur tvennskonar rök liggja þar til grundvallar.

Annars vegar munu væntingar um veikingu við afléttingu gjaldeyrishafta vinna gegn styrkingu krónunnar. Auk þess mun tilhugsunin um að fjármunir sem færðir eru í krónur verði fastir í þeim gjaldmiðli í að minnsta kosti þrjú ár letja menn til að skipta gjaldeyri í krónur. Í þessu liggur ein af þversögnunum um varnaráhrif gjaldeyrishaftanna að mati Greiningardeildarinnar.

Til að gæta fullrar sanngirni verður þó að benda á að spá Seðlabankans um gengisstyrkingu lítur nú meira sannfærandi út en áður að því leyti að bankinn telur að viðskiptajöfnuður verði jákvæður á næstu árum.

Jákvæður viðskiptajöfnuður er ein af megin forsendunum fyrir því að kalla megi botninn í gengi krónunnar, þótt fleira þurfi að sjálfsögðu að koma til.



Háir vextir næstu þrjú árin


En hvað þýðir það fyrir stýrivexti ef gengi krónunnar styrkist ekki?

Ef marka má orð Peningastefnunefndar verður ekki hægt að lækka vexti nema gengi krónunnar styrkist. Ekki nema til komi stefnubreyting hjá Seðlabankanum, eða með öðrum orðum að bankinn hverfi frá gengismarkmiði.

Rétt er að hafa í huga orð Seðlabankastjóra um að algjör aflétting gjaldeyrishafta geti tekið um þrjú ár og ekki skal gleyma því að Seðlabankinn hefur bent á nauðsyn hás vaxtastigs þegar gjaldeyrishöft verða afnumin.

Má skilja þetta sem svo að vextir verði því háir allavega næstu þrjú árin eða að stefnubreyting verði óumflýjanleg einhversstaðar á leiðinni.

Sú stefnubreyting sem hér er vikið að gæti þó verið nær okkur í tíma en margan gæti grunað. Ef stefnubreytingin felst í minni áherslu á gengisstöðugleika verður forsendan sú að efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja geti þolað veikara gengi um stundarsakir.

Seðlabankinn geti því á ný farið að fikra sig niður með vexti þegar áhrif veikara gengis á heimili og fyrirtæki hafa verið aftengd, með öðrum orðum þegar stærstum hluta erlendra lána hefur verið skuldbreytt í krónur, það er hjá aðilum sem ekki hafa tekjur á móti í erlendri mynt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×