Viðskipti innlent

Afkoma SS batnar verulega á milli ára

Sláturfélag Suðurlands tapaði 45,8 milljónum kr. á fyrstu sex mánuðum ársins. Er þetta mun betri afkoma en á sama tímabili í fyrra þegar tapið nam tæpum 472 milljónum kr.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að hátt vaxtastig og gengistap erlendra lána skýrir neikvæða afkomu.

Tekjur á fyrri árshelmingi námu tæplega 3,7 milljörðum og aukast um 13,4% milli ára. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 957 milljónir kr. í lok júní.

Í tilkynningunni segfir að rekstrarumhverfi fyrirtækja er afar erfitt í dag, mikil verðbólga, hátt vaxtastig og neikvæð gengisþróun samfara auknum samdrætti í einkaneyslu í kjölfar verulegrar lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila.

Velta félagsins jókst þó um rúm 13% sem er jákvætt í erfiðu árferði. Hátt vaxtastig og veiking krónunnar hafði neikvæð áhrif á afkomu SS á fyrri hluta ársins. Þróun fjármagnsliða á seinni hluta ársins mun ráða miklu um afkomu félagsins á árinu.

Kjötsala á landsvísu hefur dregist saman á undanförnum mánuðum jafnframt því sem útflutningsskylda á dilkakjöti er fallin niður. Veik staða krónunnar hefur bætt skilyrði fyrir útflutningi á lambakjöti enda mikilvægt að flytja út umtalsvert magn þar sem innlend framleiðsla er mun meiri en innanlandsneysla.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×