Viðskipti innlent

Innistæðubréf Seðlabankans tvöfölduðust í útboði

Seðlabankinn tók tilboðum í innstæðubréf fyrir 30 milljarða kr. í gær sem er það hámark sem peningastefnunefnd ákvað á síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Innstæðubréfaflokkurinn nærri tvöfaldaðist í útboðinu og er nú orðinn 64,8 milljarða kr. þar sem endurkaupadagur var á bréfum fyrir 10,6 milljarða kr. sem voru seld 14. október s.l.

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að vextir útboðsins voru 10,21% en þeir mega að hámarki vera 10,25% að ákvörðun peningastefnunefndar.

Vextir á millibankamarkaði með krónur tóku smávægilegum breytingum eftir stýrivaxtaákvörðunina í síðustu viku þegar vextir til eins og þriggja mánaða hækkuðu um 25 punkta á meðan daglánavextir og vextir til einnar viku lækkuðu um 50 punkta.

Millibankavextir hafa undanfarið tekið breytingum í takt við breytingar á vöxtum í útboðum innstæðubréfa þannig að búast má við því að þeir verði hærri í dag en í gær, ef að líkum lætur.

Í Hagsjánni segir að velta á millibankamarkaði hefur verið afar takmörkuð og ber því að taka millibankavöxtum með þeim fyrirvara. Hins vegar sáust blikur á lofti í Hagvísum Seðlabankans fyrir október. Veltan er eftir sem áður mjög takmörkuð þar sem fjármálastofnanir hafa litla þörf á auknu lausafé og þurfa því ekki að leita hver til annarar eftir því.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×