Viðskipti innlent

Vilhjálmur: Við munum aldrei una skattahækkunum

Mynd/Pjetur

„Samtök atvinnulífsins munu aldrei una skattahækkunum sem eru til þess fallnar að dýpka og lengja kreppuna og geta heldur ekki unað því að gengið sé þvert á það sem búið er að semja um. Verði það niðurstaða ríkisstjórnarinnar skilja leiðir," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pistli sem birtist á heimasíðu samtakanna.

Vilhjálmur segir að Samtök atvinnulífsins hafi átt samstarf við ríkisstjórnina og reynt að ná friði við hana um skattamálin. Samtökin hafi nálgast viðfangsefnið af fullri ábyrgð með hliðsjón af nauðsyn þess að ná niður halla ríkissjóðs.

„Samtökin hafa bent á leiðir til þess að ná inn því sem áformað er að atvinnulífið beri og lagt áherslu á að minni heildarskattheimta verði nýtt til að draga úr áformum um hækkun á tekjuskatti einstaklinga sem voru algjörlega óraunhæf eins og þau birtust í fjárlagafrumvarpinu," segir framkvæmdastjórinn.

Þá segir Vilhjálmur að boltinn sé hjá ríkisstjórninni. Hann voni að niðurstaða náist sem atvinnulífið geti unað við. „Meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins er að binda enda á kreppuna og koma fjárfestingum og uppbyggingu nýrra starfa af stað. Um þetta hefur ríkisstjórnin sagst vera sammála SA og um þetta var samstaða í stöðugleikasáttmálanum."

Pistli Vilhjálms er hægt að lesa hér






Fleiri fréttir

Sjá meira


×