Erlent

Hyggjast banna ofbeldistölvuleiki

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela.

Löggjafarþing Venesúela hyggst setja lög um tölvuleikjanotkun þar í landi og banna ákveðna leiki.

Það eru blóðugustu tölvuleikirnir sem verða fórnarlömb nýju laganna en með því að banna ofbeldisfulla tölvuleiki telja yfirvöld sig geta dregið úr þeirri skálmöld sem ríkt hefur um langt árabil í landinu. Tugir manna eru myrtir í viku hverri í höfuðborginni Caracas sem talin er ein hættulegasta borg Suður-Ameríku og er samkeppnin um þann titil þó hörð.

Gagnrýnendur Hugo Chavez forseta segja að síðan hann tók við embætti fyrir áratug hafi eitt hundrað þúsund manns verið drepnir í landinu. Erfitt er að sanna þetta eða hrekja þar sem lögregluyfirvöld nenna helst ekki að gefa út neina afbrotatölfræði en telja sig hafa öðrum hnöppum að hneppa.

Margir eru efins um að bann við ofbeldisleikjum nægi til að venesúelskir ofbeldismenn beri klæði á vopnin og benda á að yfirvöld feli sig bak við veigalitlar aðgerðir gegn vandanum. Sannleiksgildi þeirra orða mun tíminn einn leiða í ljós en frumvarp laganna er komið gegnum fyrri umræðu af tveimur hjá þinginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×