Viðskipti innlent

Allur tekjuskattur 150.000 einstaklinga í vaxtagreiðslur

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Allur tekjuskattur ríflega hundrað og fimmtíu þúsund landsmanna á næsta ári mun að öllum líkindum jafngilda því sem ríkissjóður þarf að greiða í vexti af lánum, þótt ekki sé byrjað að greiða af Icesave.

 

Hreyfingin sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun undir yfirskriftinni Hvað verður um skattana árið 2009? Áætlað er að um 180 þúsund manns greiði tæplega 93 milljarða króna í almennan tekjuskatt á þessu ári.

 

Hreyfingin setur þessar tölur í samhengi við áætlaðan vaxtakostnað ríkissjóðs vegna Icesave reikninganna, sem hún telur vera um 100 milljónir króna á dag, eða 36,5 milljarðar króna á ári. Þá kemur í ljós, segir Hreyfingin, að allur tekjuskattur ríflega 70 þúsund einstaklinga fari eingöngu í að borga vextina af Icesave láninu, eða 39% af öllum tekjuskatti ársins 2009.

 

Hreyfingin mótmælir nýju Icesave frumvarpi vegna þess hve þessi kostnaður er gríðarlegur baggi á skattgreiðendum - þó hann sé lítill hluti af skuldum ríkissjóðs.

 

Íslendingar byrja að greiða af Icesave láninu árið 2015, á meðan safnar höfuðstóllinn vöxtum, sem Hreyfingin lýsir áhyggjum sínum af, en á meðan er ríkissjóður að greiða vexti af ýmsum öðrum lánum. Nú er áætlað að ríkið þurfi að greiða 80-90 milljarða króna í vexti á næsta ári, sem er nærri fimmtungur af tekjum ríkissjóðs.

 

Ætla má að einstaklingar greiði tæpa hundrað milljarða króna í almennan tekjuskatt til ríkisins á næsta ári. Það þýðir að allur tekjuskattur um hundrað og fimmtíu þúsund Íslendinga jafngilda því sem ríkið þarf að líkindum að greiða í vexti af lánum, öðrum en Icesave, á næsta ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×