Viðskipti innlent

Segir viðvaninga hafa stjórnað seðlabankanum

Ólafur Arnarson
Ólafur Arnarson
Tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans mun kosta hvert mannsbarn á Íslandi á aðra milljón. Glæfraleikur fyrrverandi bankastjórnar Seðlabankans mun því verða stærsti einstaki skellurinn sem lendir á íslenskum skattgreiðendum, líklega tvöfalt stærri en Icesave segir höfundur bókarinnar Sofandi að feigðarósi.

Ólafur Arnarson, höfundur metsölubókarinnar Sofandi að feigðarósi, skrifar úttekt um tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans á pressan.is. Þar kemur fram hörð gagnrýni á lánveitingar Seðlabankans sem voru án haldbærra trygginga heldur í gegnum hinu svokölluðu endurhverfu viðskipti þar sem lánað var í gegnum þriðja aðila.

Hann segir rekstrarþrot Seðlabankans skjóta skökku við í alþjóðlegu samhengi. Á meðan aðrir seðlabankar hafi haft haldbær veð hafi bankinn tapað stórum fjárhæðum. Ólafur segir tapið vera í kringum 350 milljarðar króna sem falli óskipt á ríkissjóð og þar með íslenska skattgreiðendur. Gönuhlaup fyrrverandi bankastjórnar Seðlabankans muni því kosta hvert mannsbarn á Íslandi á aðra milljón.

„Jafnvel þó Icesave verði tvöfalt á við það sem skilanefnd Landsbankans vonast til að verði, þá yrði það samt vel innan við helmingurinn af því tjóni sem skellur á okkur útaf glórulausum útlánum seðlabankans," segir Ólafur.

Ólafur segir að fyrrverandi bankastjórn Seðlabankans beri fulla ábyrgð.

„Þetta sýnir að þarna voru viðvaningar á ferð. Þessir menn kunnu ekki að stýra banka, hvorki seðlabanka né öðrum bönkum. Það lánar enginn banki gríðarlegar upphæðir án þess að hafa haldbær veð á móti, án þess að hafa einhverjar tryggingar í höndunum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×