Innlent

Fúsk og furðuleg umhverfisstefna

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson

Umhverfisstefna stjórnvalda virðist miða að því að takmarka nýtingu á þeim auðlindum sem nóg er af en ganga á þær sem eru takmarkaðar. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann ritaði í gær grein á vef samtakanna þar sem farið var yfir fyrirhugaðar breytingar í skattheimtu.

Mest segir hann bera í milli í fyrirætlunum stjórnvalda og skoðun samtakanna þegar kemur að stöðu sjávarútvegsins. „Við getum ekki sætt okkur við að sjávarútvegurinn taki á sig ríflega 3,5 milljarða í hækkun á tryggingagjaldi, veiði- og kolefnisgjaldi, en honum svo ekki gefinn starfsfriður.“ Hann bendir á að í frumvarpi landbúnaðarráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða, sé áætlað að veiða skötusel áttatíu prósent umfram ráðgjöf.

„Hvaða umhverfisstefna er það að vilja ekki nýta þær auðlindir sem er nóg af en ganga á þær sem eru takmarkaðar?“ segir hann og vísar til tregðu í virkjun endurnýjanlegra orkugjafa. „Það er ekki hægt að bjóða upp á svona lagað. Þetta er svo ótrúlegt fúsk,“ segir hann. Engu að síður fagnar Vilhjálmur því að ríkisstjórnin hafi horfið frá áformum um sextán milljarða nýja varanlega orku-, kolefnis- og umhverfisskatta. „Heildartekjur af þeim eiga nú að nema 4,4 milljörðum á ári í þrjú ár, þegar þessir skattar falla niður,“ segir hann og kveður mikilvægt að í stað þeirra muni að þeim tíma liðnum koma skattlagning sem verði í samræmi við alþjóðasamninga og þróun á alþjóðlegum vettvangi.

„Við reiknum með að út úr loftslagssamningunum og þeim þáttum komi skattaumhverfi sem okkar fyrirtæki geti gengið inn í, en þeim sé ekki mismunað í samanburði við erlenda keppinauta.“

Til viðbótar við þá umhverfisskatta sem stóriðjan á að greiða næstu þrjú ár bætist fyrirframgreiðsla tekjuskatts, 1,2 milljarðar króna á ári í þessi þrjú ár. Þær greiðslur segir Vilhjálmur að skiptist hlutfallslega á orkufyrirtækin, í sömu hlutföllum og gjaldið sem lagt var á kílóvattstundina. Stærstan hlut greiði Alcoa, þar á eftir komi svo Norðurál með litlu minni hlut, þá Ísal og svo Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga.

Vilhjálmur telur að með þessum breytingum megi tryggja að áform um fjárfestingar í stóriðju og virkjunum geti gengið eftir. „Þar erum við að tala um að Helguvík geti haldið áfram af fullum krafti og líka framleiðsluaukningin í Straumsvík. Þessar framkvæmdir eru algjör lykilforsenda þess að hér verði hagvöxtur á næsta ári, en ekki kreppan, taka tvö,“ segir Vilhjálmur.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×