Erlent

Þúsundir nýrra dýrategunda

Atlantshafið Djúpt í fylgsnum sjávar leynist meira líf en vísindamenn hafði órað fyrir. nordicphotos/AFP
Atlantshafið Djúpt í fylgsnum sjávar leynist meira líf en vísindamenn hafði órað fyrir. nordicphotos/AFP

Í djúpum Atlantshafsins er að finna fjöldann allan af áður óþekktum dýrategundum, sem sumar hverjar þykja harla undarlegar:

gegnsæjar sjávargúrkur með þreifara, frumstæða risakolkrabba með átta arma og flaksandi ugga sem helst minna á eyru, og orma sem nærast á olíuforða í hafsbotni.

Bandarískir vísindamenn sendu á sunnudaginn frá sér skýrslu um rannsóknir á dýralífi í djúpum Atlantshafsins. Þar kemur fram að 17.650 tegundir hafa fundist á meira en 200 metra dýpi, þangað sem sólarljósið nær ekki.

Af þessum tegundum eru 5.600 sem ekki voru þekktar áður. Vonir standa til að þúsundir í viðbót finnist á næstu árum.

Einna mest kemur á óvart fjöldi þeirra dýra sem hafast við á meira en þúsund metra dýpi, þar sem talið var að dýralíf væri afar einhæft. Þar eru 5.722 nýjar tegundir skráðar í skýrsluna.

„Sums staðar eru hafdjúpin, sem við töldum vera einhæf, í reynd afar flókin,“ segir Robert S. Garney, einn vísindamannanna.

Meira en 2.000 vísindamenn frá 80 ríkjum vinna nú að því að skrá lífríki djúpsjávarins. Þegar því verki er lokið er ætlunin að gefa út þrjár bækur um niðurstöðurnar. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×