Viðskipti innlent

Kaupþing lánaði 11 milljarða til snekkjukaupa

Kaupþing
Kaupþing
Kaupþing lánaði aðila í konungsfjölskyldu Saudí Arabíu 11 og hálfan milljarð til snekkjukaupa. Sérstaklega tekur Kaupþing fram að staða lántakandans gæti valdið vandræðum ef ganga þyrfti að lánatryggingum.

Umfjöllun um lánabók Kaupþings birtist á bresku vefsíðunni this is money í gærkvöldi. Þar er fjallað um hvernig lögfræðingar bankans hafi reynt án árangurs að koma í veg fyrir að lánabók bankans frá því í september í fyrra yrði gert opinber.

Í umfjöllun This is money er sérstök athygli vakin á 54 milljón punda láni til ónafngreinds aðila í konungsfjölskyldu Saudí Arabíu, til að kaupa 82 metra lúxussnekkju sem kostaði 127 milljónir punda. Lánið er í íslenskum krónum rúmir 11 og hálfur milljarðar króna.

Þá er sérstök athygli vakin á því að í lánabókinni standi um þetta lán að ef svo ólíklega vilji til að bankinn þurfi að ganga að lánatryggingunni gæti staða lántakandans valdið vandræðum. Hér er líklega verið að vísa í það að aðilinn tilheyri konungsfjölskyldunni í Saudí Arabíu.

This is money fjallar einnig um 67,5 milljón punda lán sem Kaupþing veitti rússneska vodka auðmanninum Yuri Shefler einnig til að kaupa snekkju sem metin var á 174 milljónir punda.

Þá hafi Kaupþing lánað fasteignafélagi í Bretlandi 55 milljónir punda í ýmis verkefni, meðal annars til kaupa á garðinum Higham í Kent sem er frá árinu 1320.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×