Viðskipti innlent

RBS greiðir starfsfólki bónusa þrátt fyrir milljarðatap

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Royal Bank of Scotland mun halda áfram að greiða starfsfólki háar bónusgreiðslur þrátt fyrir að milljörðum punda af peningum skattgreiðenda hafi verið varið til að bjarga bankanum. Bónusgreiðslurnar eiga að koma í veg fyrir það að hæfileikaríkt starfsfólk flýi bankann.

Eftir að tilkynnt hafði verð á dögunum að bankinn tapaði 1 milljarði punda á fyrri helmingi ársins, sagði Stephen Hester, forstjóri bankans, að hann hefði þegar orðið var við að mikið hæfileikafólk hefði yfirgefið bankann „Við verðum að gæta að því að þetta eyðileggi ekki bankann," sagði Hester. Bankinn yrði því að geta greitt samkeppnishæf laun. Hann tók þó fram að bónusar yrðu greiddir eftir árangri. Þeir starfsmenn sem sýndu ekki fram á árangur fengu enga bónusa.

Samkvæmt frásögn Telegraph sýndi uppgjör bankans fyrir fyrri helming ársins að starfsmenn bankans, sem eru um 19 þúsund að tölu, þénuðu að meðaltali 100 þúsund pund yfir sex mánaða tímabil. Það jafngildir 21 milljón íslenskra króna á sex mánaða tímabili, eða 3,5 milljónum á mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×