Viðskipti innlent

Hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir greiði niður Icesave-skuld

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóðina að Icesave eiga rétt á sér, þ.e. sjóðirnir borgi niður skuldina en fái fjármagn frá ríkissjóði á móti. Með þessu mætti lækka verulega vaxtauppsöfnun fyrir ríkissjóð og slík fjárfesting gæti verið á álitlegum kjörum fyrir lífeyrissjóðina.

Þetta kom fram í máli Steingríms á ríflega 80 manna morgunverðarfundi Viðskiptaráðs undir yfirskriftinni „Hlutverk lífeyrissjóða í endurreisninni" á Hilton Reykjavík Nordica núna í morgun. Markmið fundarins var að ræða opinskátt og fordómalaust um hugmyndir sem fjöldi aðila hefur lagt fram á undanförnum vikum og mánuðum er varða aðkomu sjóðanna að endurreisnarstarfinu.

Í tilkynningu segir að framsögumenn hafi verið Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Fjármálaráðherra fagnaði því að athygli skyldi beint að þessu málefni og sagði mikivægt að allar hugmyndir væru ræddar. Að hans mati þyrfti að umgangast styrk lífeyrissjóðanna með gát og að ekki mætti hrófla við grunntilgangi þeirra. Þá sagði ráðherra hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóðina að Icesave eiga rétt á sér, enda mætti lækka verulega vaxtauppsöfnun fyrir ríkissjóð og slík fjárfesting gæti verið á álitlegum kjörum fyrir lífeyrissjóðina.

Benedikt Jóhannesson fjallaði um kosti og galla skattlagningar iðgjalda, sem hann taldi álitlegan kost til að brúa hallann á tekjuhlið ríkissjóðs án þess að draga úr kaupgetu almennings. Þá lagði Benedikt fram frekari tillögur að því hvernig brúa mætti hallann með sem minnstri röskun fyrir heimili og atvinnulíf.

Hrafn Magnússon fagnaði umræðunni og sagði frumskyldu lífeyrissjóðanna, þ.e. að standa vörð um hag sjóðsfélaga sinna, alls ekki útiloka hlutverk sjóðanna í endurreisninni. Í þeim efnum væru sjóðirnir einkum að horfa á atvinnuskapandi og helst sjálfbær verkefni á vegum hins opinbera. Hafa þyrfti hins vegar í huga að uppspretta fjármagns sjóðanna væri takmörkum háð.

Frosti Ólafsson sagði fulla þörf á opinni og málefnanlegri umræðu um þátttöku lífeyrissjóða í endurreisninni, sem hann taldi geta verið umfangsmeiri en rætt hefur verið. Nefndi Frosti þar m.a. aðkomu sjóðanna að Icesave málinu t.a.m. með láni til ríkisins. Slík aðgerð myndi fela í sér mikinn ímyndarlegan ávinning, eyða óvissu og svo gæti hún reynst arðbær fjárfesting fyrir sjóðina.

Þá sagði Frosti að lífeyrissjóðakerfið væri ekki afmarkaður þátttakandi í hagkerfinu, heldur réðist styrkur þess af undirliggjandi hagrænum þáttum. Hagsmunir þess, hins opinbera, atvinnulífs og einstaklinga væru þannig samofnir og því væri þörf á umræðu sem þessari, þar sem hagsmunir heildarinnar yrðu hafðir að leiðarljósi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×