Viðskipti innlent

Hlutafjárútboði Marel lokið

Marel.
Marel.

Stjórn Marel Food Systems hf. (Marel) ákvað að taka tilboðum að upphæð 7 milljarðar króna, sem jafngildir 38 milljónum evra, eftir velheppnað hlutafjárútboð á meðal fagfjárfesta sem lauk í dag samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Stefnt var að 15% aukningu en tilboð bárust um kaup á alls 111.136.497 nýjum hlutum, sem jafngildir 18% aukningu. Ákvað stjórnin að taka öllum tilboðum, sem komu frá íslenskum lífeyrissjóðum og erlendum og innlendum fagfjárfestum.

Gengi í útboðinu var kr. 63 á hlut. Með útboðinu leysir Marel til sín 61,8% af skuldabréfaflokki MARL 06 1 og 17,6% af skuldabréfaflokki MARL 09 1. Stjórn Marel hefur í kjölfar útboðsins samþykkt að auka hlutafé félagsins um 111.136.497 hluti.

Hlutafjárhækkunin nemur 18% og verður heildarhlutafé Marel 727.136.497 hlutir eftir aukninguna.

Gjalddagi hinna nýju hluta er miðvikudaginn 2. desember næstkomandi. Marel mun óska eftir því að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta hjá NASDAQ OMX Iceland eigi síðar en miðvikudaginn 9. desember næstkomandi.

Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn höfðu umsjón með útboðinu fyrir hönd Marel en tilgangur útboðsins var að styrkja frekar fjárhagsgrunn Marel, draga úr gengisáhættu og lækka fjármögnunarkostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×