Viðskipti innlent

Skuldabréf Glitnis skráð á lista í fyrra og á Bloomberg

Ráðgjafar skilanefndar Glitnis fengu senda lista yfir útgefin skuldabréf bankans í október á síðasta ári, meðal annars 140 milljarða skuldabréfin sem sagt hefur verið að hafi birst upp úr þurru. Auk þess hafa upplýsingar um útgefin skuldabréf Glitnis verið aðgengilegar á Bloomberg fréttaveitunni.

Á fundi kröfuhafa Glitnis á fimmtudag í síðustu viku var greint frá því að skuldabréf upp á 140 milljarða króna hefði ekki verið bókfærð sem skuld í safni bankans. Virtust skuldabréfin því birtast eins og skrattinn úr sauðaleggnum við litla hrifningu starfsmanna skilanefndarinnar.

Árni Tómasson, formaður skilanefndarinnar, sagði í fréttum okkar að nefndin hefði fyrst fengið upplýsingar um málið nokkrum dögum áður. Allar ásakanir um að nefndin hefði vitað lengur um mistökin og ekki viljað greina frá þeim væru því úr lausu lofti gripnar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu ráðgjafar skilanefndarinnar þó senda lista yfir öll útgefin skuldabréf Glitnis. Fyrsti listinn var sendur 28. október í fyrra og innihélt m.a. upplýsingar um umrædd skuldabréf. Þessu til viðbótar eru upplýsingar um útgefin skuldabréf bankans aðgengilegar á Bloomberg fréttaveitunni. Skuldabréfin voru því hvorki týnd né átti tilvist þeirra að koma á óvart.

Greint er frá því í dag í breska blaðinu Telegraph að skilanefndin hafi nú fengið fjármálarannsóknafyrirtækið Kroll til að hafa upp á skuldabréfunum. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir þessa frétt ranga. Kroll hafi ekki verið fengið til að rannsaka málið heldur fari endurskoðunarfyrirtækið Deloitte með rannsóknina. Um bókhaldsrannsókn sé að ræða og á þessu stigi sé ekkert sem bendi til að um ólöglegan gjörning sé að ræða.






































Fleiri fréttir

Sjá meira


×