Viðskipti innlent

Þorsteinn semur við Kaupþing um skuld

Þorsteinn Jónsson, gjarnan kenndur við Kók.
Þorsteinn Jónsson, gjarnan kenndur við Kók. Mynd/Hörður Sveinsson

Nýja Kaupþing hefur stefnt Magnúsi Ármann og Kevin Stanford og krefst þess að þeir standi skil á 730 milljóna króna láni til félags í þeirra eigu. Auk þess stefndi Kaupþing Þorsteini Jónssyni, þriðja eiganda félagsins, en hann hefur að eigin sögn samið við bankann.

Félagið sem um ræðir heitir Materia Invest og var um tíma í hópi stærstu hluthafa FL Group. Sá hlutur er einskis virði í dag. Magnús Ármann, Þorsteinn Jónsson, gjarnan kenndur við Kók og breski kaupsýslumaðurinn Kevin Stanford eru eigendur félagsins.

Mikla athygli vakti þegar upplýst var á aðalfundi FL Group á síðasta ári að eigendur Materia Invest skulduðu félaginu 73 milljónir vegna afnota af einkaflugvélum. Skuldin var gerð upp síðar á því ári.

Nýja Kaupþing hefur nú stefnt eigendum Materia Invest og krefst þess að ábyrgðir vegna 730 milljóna króna láns til félagsins falli á þá. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.

Þorsteinn sagði í samtali við fréttastofu að Kaupþing hefði dregið stefnuna á hendur honum tilbaka. Hann ynni nú að lausn á málinu í samvinnu við bankann.

Fari það svo að ábyrgðin falli á þá Magnús og Stanford þurfa þeir að greiða 240 milljónir króna hvor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×