Viðskipti innlent

Bandaríkjamarkaður að taka slakan í þorsksölunni

Sala á þorski gengur vel í Bandaríkjunum. Mynd/ GVA.
Sala á þorski gengur vel í Bandaríkjunum. Mynd/ GVA.
Samkvæmt fréttum í innlendum og erlendum vefmiðlum hefur sala á þorski til Bandaríkjanna aukist nokkuð að undanförnu. Er sagt að salan á þorski vestur um haf taki slakann sem myndast hefur á sölunni á þorski til Evrópu, og þá einkum Bretlands og Spánar.

Svavar Svavarsson markaðsstjóri hjá HB Granda segir að þeir selji aðallega sjófrystan þorsk til Bandaríkjanna og að salan hafi verið jöfn og góð undanfarna mánuði og verðið sem fáist sé ágætt. Hann vill þó ekki meina að um umtalsverða aukningu sé að ræða hjá þeim.

„Það má svo nefna að fyrir nokkrum árum var Bandaríkjamarkaður með þeim stærri fyrir Íslendinga en datt svo mikið niður í uppsveiflunni síðustu ár þegar Evrópulönd buðu hærra verð," segir Svavar. „Nú hefur töluverð verðlækkun verið í gangi einkum í Bretlandi og á saltfiski til Spánar en við teljum að botninum sé nú náð hvað verðin áhrærir."

Vefsíðan FISHupdate.com greinir frá því að salan á þorski frá Íslandi hafi tvöfaldast eftir að verðið féll í Bretlandi. Svavar segir að hann merki ekki svo mikla aukningu í sölunni en hinsvegar beri að nefna að ekki þurfi mikið magn til að tvöfalda söluna í heild þar sem hún var orðin það lítil fyrir.

„Við reynum að hafa jafnvægi í sölunni hjá okkur vestur og austur um haf og það hefur tekist ágætlega," segir Svavar.

Indriði Ívarsson sölustjóri hjá Ögurvík segir að þeir hafi ekki merkt aukinn áhuga hjá Bandaríkjamönnum á að kaupa fisk héðan, nema síður sé. „Ég tel að það stafi af því að Rússar eru nú að moka þorski úr Barentshafi inn á Bandaríkjamarkaðinn á mjög hagstæðum verðum," segir Indriði. „Við seldum síðast til Bandaríkjanna um páskana og þar var um ýsu að ræða."

Indriði er sammála Svavari um að staðan sé að batna á Bretlandseyjum eftir töluverðar verðlækkanir. „Verðin hjá okkur hafa nú hækkað tvisvar á skömmum tíma, að vísu er ekki um miklar hækkanir að ræða en hækkanir samt," segir Indriði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×